Körfubolti

Belgar unnu Litháa á EM og Sviss vann Rússland | Mótherjar Íslands í undankeppni EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson, Hlynur Bærginsson og strákarnir í körfuboltalandsliðinu stóðu sig vel á sínu fyrsta Eurobasket-móti.
Logi Gunnarsson, Hlynur Bærginsson og strákarnir í körfuboltalandsliðinu stóðu sig vel á sínu fyrsta Eurobasket-móti. Vísir/Valli
Íslenska körfuboltalandsliðið lenti í riðli með Belgíu, Sviss og Kýpur þegar dregið var í riðla í Þýskalandi í dag fyrir undankeppni Eurobasket 2017.

Íslenska landsliðið hefði vissulega getað verið mun óheppnari með riðil sem sést kannski á því að  Svíar enduðu í riðli með Rússum og Bosníumönnum, Ungverjar eru með Makedóníu og Bretlandi í riðli og þá lentu Danir með Þjóðverjum, Hollendingum og Austurríkismönnum.

Það breytir ekki því að Ísland er að fara að mæta sterkum þjóðum í þessum A-riðli  og staðreyndin er sú að aðeins efsta liðið er alveg öruggt með sæti á Eurobasket 2017 þó að fjögur af sjö liðum í öðru sæti komast þangað líka.

Belgar eru fulltrúar efsta styrkleikaflokksins í riðli Íslendinga. Belgar voru með á síðasta Evrópumóti og unnu þá þrjá leiki í riðlinum og komust í sextán liða úrslitin. Belgar unnu Eista, Litháa og Úkraínu í riðlinum en féllu síðan út fyrir Grikklandi í sextán liða úrslitunum.

Svisslendingar komust ekki á EM en þeir sátu eftir í riðli í undankeppninni með Ítölum og Rússum sem komust síðan bæði á Eurobasket. Svissneska liðið byrjaði hinsvegar undanriðilinn rosalega vel og vann Rússa í fyrsta leik.

Það var hinsvegar eini sigur svissneska liðsins í riðlinum og Svisslendingar töpuðu sem dæmi seinni leiknum í Rússlandi með 45 stigum, 56-101.

Íslenska liðið ætti síðan að þekkja ágætlega til Kýpurliðsins enda hafa þjóðirnar mæst oft á Smáþjóðaleikum og oft hefur soðið upp úr. Kýpur var þó ekki með á síðustu leikum sem fóru fram hér á Íslandi.

Leikir íslenska liðsins fara allir fram frá 31. janúar til 17. september en leikið er heima og að heiman. Leikdagarnir eru 31. ágúst, 3., 7., 10., 14. og 17. september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×