Innlent

Rauði krossinn flytur af Laugaveginum

Þórgnýr Einar Albertsson og Sæunn Gísladóttir skrifa
Til stendur að breyta verslun Rauða krossins við Laugaveg 12B í hótel.
Til stendur að breyta verslun Rauða krossins við Laugaveg 12B í hótel. vísir/gva

Verslun Rauða krossins við Laugaveg 12B mun á næstunni flytja í húsnæði við Skólavörðustíg 11. Þar var Blómaverkstæði Binna áður til húsa. Áætlað er að opna nýju verslunina í febrúar.

Laugavegur 12B sem og Laugavegur 16 eru í eigu Center Hotels. Laugavegur 16 hýsir Hótel Skjaldbreið sem opnaði 1998 og nú ætlar fyrirtækið að breyta aðliggjandi húsum á Laugavegi 12B og bæta við um þrjátíu herbergjum.

„Við erum búin að vera í löngu ferli núna með byggingarfulltrúa og fleirum. Það á að gera upp húsin að hluta til, en þau eru ekki í góðu standi núna,“ segir Eva Silvernail, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

Eva segir ekki vitað hvenær framkvæmdir hefjast. „Þetta er í ferli núna því húsin eru viðkvæm. Það er verið að vinna þetta í sátt við borgina þannig að það komi út fegurri bygging fyrir vikið sem væri í samræmi við götumyndina á Laugaveginum,“ segir Eva. Hún segir standa til að stækka Hótel Skjaldbreið þannig að hótelið verði rúm 60 herbergi. Verkið sé unnið í samstarfi við Minjastofnun, Minjavernd, Reykjavíkurborg og byggingarfulltrúa. „Enda lítum við svo á að miðborgin sé okkar auðlind og það sé afar mikilvægt að allar breytingar taki mið af því.”Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira