Erlent

Hugsanlegt að brak úr MH370 hafi skolað á land

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Tveggja ára leit að flugvélinni hefur lítinn árangur borið ennþá. Á síðasta ári fannst þó brak úr vélinni.
Tveggja ára leit að flugvélinni hefur lítinn árangur borið ennþá. Á síðasta ári fannst þó brak úr vélinni. Vísir/EPA
Talið er hugsanlegt að stór málmbútur sem skolaði á land í Suður-Taílandi í gær gæti verið úr malasísku farþegaþotunni MH370, sem hvarf fyrir tveimur árum og ekkert hefur spurst til síðan. 239 manns voru um borð í vélinni.

Sjómenn í héraðinu Nakhon Si Thammarat, á suðausturströnd Taílands, fundu málmhlutinn, sem er um þriggja metra langur og tveggja metra breiður, í gær að sögn þarlendra fjölmiðla. Strax kviknuðu vangaveltur um hvort brakið gæti tengst farþegaþotunni dularfullu sem hvarf á flugi frá Kuala Lumpur til Peking í mars 2014. 

Fulltrúar taílenska hersins fóru á staðinn í gær og sóttu brakið til rannsóknar. Þeir staðfesta að líklega sé um hluta úr flugvélarbúk að ræða.

Sé brakið úr vélinni MH370 er þetta fyrsta vísbendingin sem finnst um hvarf hennar síðan í júlí í fyrra þegar brot úr henni fannst á Reunion eyju í Indlandshafi. 

Leitin að MH370 var ein sú umfangsmesta í sögunni því yfir 80.000 ferkílómetrar af sjávarbotni Indlandshafs hafa verið rannsakaðir. Enn er engin fullvissa um hvað varð til þess að flugvélin hvarf af radarnum þennan örlagaríka dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×