Körfubolti

Með hundrað prósent þriggja stiga nýtingu á móti Njarðvík og KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reggie Dupree.
Reggie Dupree. Vísir/Ernir

Njarðvík og KR hafa löngum verið helstu andstæðingar Keflvíkinga í körfuboltanum og leikir liðanna oft spennuþrungnir og krefjandi fyrir leikmenn liðanna.

Einn Keflvíkingur hefur náð ótrúlegri tölfræði í þremur leikjum liðsins á móti þessum tveimur liðum í Domino´s deild karla í vetur.

Reggie Dupree hefur stimplað sig inn í Keflavíkurliðið á þessu tímabili eftir takmarkað hlutverk í fyrravetur og er með 13,1 stig að meðaltali á 28,6 mínútum í leik.

Þrír af bestu leikjum hans hafa komið á móti Njarðvík og Keflavík þar sem hann er með 20,3 stig að meðaltali í leik.

Það er vissulega ekki slæm tölfræði en það er aftur á móti þriggja stiga nýting hans í þessum leikjum sem slær allt annað út.

Reggie Dupree hefur nefnilega hitt úr öllum þrettán þriggja stiga skotum sínum í leikjunum við Njarðík og KR. Hann skoraði fjóra þrista í báðum Njarðvíkurleikjunum og fimm þrista í eina KR-leiknum til þessa.

Reggie Dupree hefur alls nýtt 54,9 prósent þriggja stiga skota sinna í Domino´s deildinni á tímabilinu og er eins og er í efsta sætinu yfir bestu þriggja stiga nýtinguna í deildinni.

Keflavík á eftir að spila við KR í DHL-höllinni og fer sá leikur fram 19. febrúar næstkomandi. Það verður spennandi að sjá hvort að Reggie Dupree ná hundrað prósent þriggja stiga nýtingu í öllum leikjum sínum á móti erkifjendum Keflvíkinga á þessu tímabili.


Leikir Reggie Dupree á móti Njarðvík og KR í vetur:

94-84 sigur á Njarðvík í október
18 stig, hitti úr 4 af 4 þriggja stiga skotum sínum

89-81 sigur á KR í nóvember
21 stig, hitti úr 5 af 5 þriggja stiga skotum sínum

86-92 tap fyrir Njarðvík í janúar
22 stig, hitti úr 4 af 4 þriggja stiga skotum sínumAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira