Körfubolti

Vance Hall í fámennan hóp með Damon Johnson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vance Michael Hall.
Vance Michael Hall. Vísir/Stefán

Þórsarinn Vance Michael Hall var magnaður í gær þegar Þorlákshafnarliðið tryggði sér sæti í bikarúrslitaleiknum í fyrsta sinn eftir 100-79 heimasigur á Keflavík.

Vance Hall skoraði 40 stig á 37 mínútum í leiknum auk þess að taka 8 fráköst og gefa 6 stoðsendingar. Hann var bæði stigahæstur og stoðsendingahæstur á vellinum.

Vance Hall varð með þessu fyrsti maðurinn í tólf ár til að skora 40 stig í undanúrslitaleik bikarsins og fyrsti maðurinn í sautján ár sem skorar 40 stig og fagnar líka sigri í undanúrslitunum.

Í raun eru bara tveir leikmenn undanfarin tuttugu ár sem hafa fengið inngöngu í 40 stig og sigur klúbbinn í undanúrslitum bikarsins.

Hinn meðlimurinn er Damon S Johnson sem skoraði 49 stig fyrir Keflavík í sigri á Tindastól 24. janúar 1999. Damon skoraði stigin sín 49 á 36 mínútum og hitti úr 20 af 26 skotum sínum í leiknum.

Síðastur á undan Vance Hall til að skorað 40 stig í leik í undanúrslitum bikarsins var Darrel K Lewis, þáverandi leikmaður Grindavíkur en núverandi leikmaður Tindastóls.

Darrel K Lewis skoraði 40 stig fyrir Grindavík á móti Keflavík 17. janúar 2004 en það dugði ekki til því Keflavíkurliðið vann leikinn 107-97. Nick Bradford og Derrick Allen voru báðir með 35 stig fyrir Keflavíkurliðið í leiknum.

Flest stig í undanúrslitum bikarsins undanfarin tuttugu ár:
49 - Damon S Johnson, Keflavík á móti Tindastól 24. janúar 1999 - sigur
41 - Ray Hairstone, Haukum á móti Njarðvík 25. janúar 1999 - tap
40 - Vance Michael Hall, Þór á móti Keflavík 25. janúar 2016 - sigur
40 - Darrel K Lewis, Grindavík á móti Keflavík 17. janúar 2004 - tap
37 - Jeremiah Johnson, Grindavík á móti Skallagrími 5. febrúar 2006 - sigur
35 - Nick Bradford, Keflavík á móti Grindavík 17. janúar 2004 - sigur
35 - Derrick Allen, Keflavík á móti Grindavík 17. janúar 2004 - sigur
35 - Stevie Johnson, Þór Ak. á móti KR 2002 20. janúar 2002 - tap
35 - Darryl Wilson, Grindavík á móti Val 25. janúar 1998 - sigur


Tengdar fréttirFleiri fréttir

Sjá meira