Innlent

Sigurður kom í fangelsið nánast beint „af götunni“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Börkur og Annþór eru ákærðir fyrir að hafa beitt Sigurð ofbeldi sem leiddi til dauða hans.
Börkur og Annþór eru ákærðir fyrir að hafa beitt Sigurð ofbeldi sem leiddi til dauða hans. Vísir

Fangaverðir og sjúkraflutningamenn sem kallaðir voru til vegna veikinda Sigurðar Hólm Sigurðssonar sem lést í klefa sínum á Litla-Hrauni 17. maí 2012 hafa í dag borið vitni í máli ríkissaksóknara gegn þeim Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa ráðist á Sigurð í klefa hans með þeim afleiðingum að hann lést.

Í máli þeirra fangavarða sem höfðu afskipti af Sigurði þegar hann kom í fangelsið daginn áður en hann lést kom fram að hann hefði litið illa út enda væri hann nánast að koma inn í fangelsið beint „af götunni.“ Hann hafi verið mjög magur og illa haldinn

Gefin lyf til að trappa niður
Þekkt hafi verið að hann hafi verið í mikilli neyslu og hann var í einangrun fyrsta sólarhringinn í fangelsi þar sem fangaverðir fylgdust með ástandi hans. Þá voru honum gefin lyf til að trappa hann niður.

Einn þeirra fangavarða sem kom fyrir dóminn lýsti því þegar hann var kallaður til aðstoðar í klefa Sigurðar. Þá hafi fangaverðir verið þar fyrir og hann hafi verið beðinn um að fara og sækja hjartastuðtæki. Það hafi hann gert en svo þegar hann kom á staðinn hafi tækið ekki leyft það að gefið yrði stuð.

Því hafi endurlífgun verið reynd, hjartahnoð og blástur. Á einhverjum tímapunkti hafi svo sjúkraflutningamenn og læknir komið á staðinn og tekið við stjórninni. Að lokum fór það svo að læknirinn úrskurðaði hann látinn.

Hjartastopp en ekki truflanir
Einn sjúkraflutningamannanna útskýrði svo hvers vegna ekki hafi mátt gefa Sigurði hjartastuð. Tækið nemi hvenær megi gefa stuð og hvenær ekki en aðeins megi gefa stuð þegar hjartsláttartruflanir eru til staðar. Sigurður hafi hins vegar verið í hjartastoppi.

Enginn þeirra fangavarða eða sjúkraflutningamanna sem báru vitni sögðust hafa orðið varir við eitthvað óvenjulegt í tengslum við andlát Sigurðar inni í klefa hans. Þá kom jafnframt fram að útkallið sem kom í gegnum Neyðarlínuna hafi verið vegna líklegra fráhvarfa hjá fanga, meðvitundarleysis og hjartastopps.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira