Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Njarðvík 90-74 | KR í undanúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukur Helgi á ferðinni í kvöld.
Haukur Helgi á ferðinni í kvöld. Vísir/ernir

Íslandsmeistarar KR komust tiltölulega þægilega í undanúrslit Powerade-bikars karla í körfubolta í kvöld þegar þeir lögðu Njarðvík, 90-74, í DHL-höllinni.

Njarðvík var yfir eftir fyrsta leikhlutann, 22-19, en KR tók forystuna í öðrum leikhluta og fór langt með að ganga frá leiknum í þeim þriðja sem liðið vann, 20-12.

Í öðrum og þriðja leikhluta fór hin firnasterka KR-vörn virkilega í gang og fékk liðið mikið af auðveldum stigum úr hraðaupphlaupum.

Hinn 17 ára gamli Þórir Guðmundur Þorbjarnarson kom inn af krafti og skoraði níu stig á fimm mínútum. Sá ungi var alveg óstöðvandi þegar hann kom inn á í fyrri hálfleiknum.

Aðalmaður KR, eins og þegar liðið vann Njarðvík síðast, var bandaríski miðherjinn Michael Craion. Kanalausir Njarðvíkingar réðu ekkert við hann undir körfunni og skoraði Craion 26 stig og tók tíu fráköst.

KR-Njarðvík 90-74 (19-22, 27-17, 20-12, 24-23)
KR: Michael Craion 26/10 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Brynjar Þór Björnsson 16/4 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 11, Ægir Þór Steinarsson 9/5 fráköst/8 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 8/5 fráköst, Darri Hilmarsson 8/4 fráköst, Helgi Már Magnússon 5/5 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 5, Pavel Ermolinskij 2/6 fráköst.
Njarðvík: Haukur Helgi Pálsson 27/15 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 19/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 15, Hjörtur Hrafn Einarsson 10/4 fráköst, Logi  Gunnarsson 3

Craion var svo öflugur undir körfu Njarðvíkur að hann tók meira að segja sjö sóknarfráköst og hélt þannig sóknum KR á lífi auk þess sem hann skoraði mikið sjálfur eftir að taka sóknarfráköstin.

Njarðvík sárvantar alvöru tank inn í teiginn, en liðið fær ekki Michael Craig eftir að ljóst var að hann er á sakaskrá. Ljónin leita því logandi ljósi að nýjum Bandaríkjamanni.

Haukur Helgi Pálsson, sem skoraði 27 stig og tók 15 fráköst í kvöld, hélt Njarðvík á lífi lengi vel auk Odds Rúnars Kristjánssonar sem skoraði 19 stig og hitti úr fimm af níu þriggja stiga skotum sínum.

Á endanum skorti Njarðvík meira framlag frá öðrum leikmönnum liðsins, en þar til Logi Gunnarsson skoraði þriggja stiga körfu í rusltíma undir lokin voru aðeins fjórir leikmenn gestanna búnir að skora.

KR-bekkurinn skoraði 24 stig á móti 0 hjá Njarðvík, en munar þar mikið um að leikmenn eins og Þórir Guðmundur, Björn Kristjánsson og Pavel Ermolinskij eru að koma inn af bekknum. Breidd KR-liðsins náttúrlega rosaleg eins og allir vita.

Njarðvík er ekki komið á þann stað að geta ógnað jafn góðu liði og KR, en með Kana undir körfunni eru þarna góðir skotmenn sem myndu njóta góðs af því.

Logi reynir að komast að körfu KR í kvöld. vísir/ernir

Logi: Okkur vantar mann inn í teiginn
Logi Gunnarsson skoraði aðeins þrjú stig fyrir Njarðvík í kvöld en KR-vörnin hafði góðar gætur á honum. Hann var ágætlega ánægður með spilamennsku Ljónanna þrátt fyrir tapið.

"Við spiluðum vel á löngum köflum á móti sterku liði þannig við getum tekið eitthvað jákvætt úr þessu og byggt á því þó við ætluðum hér að vinna," sagði hann við Vísi eftir leik.

"Við klárum bensínið í þriðja leikhluta og verðum svolítið þreyttir í smá stund. Þá vantar einn inn í teiginn sem hægt er að henda inn á þegar við erum svona mikið fyrir utan. Við bíðum bara eftir einhverjum sem getur hjálpað okkur í því."

"Nú þegar erum við að spila vel án svona manns, en til þess að taka næsta skref er eðlilegt að við fáum einn svoleiðis. Það er nóg eftir að tímabilinu þannig við erum bara rólegir. Við erum bjartsýnir þrátt fyrir tapið í kvöld," sagði Logi.

Logi var ekki að skjóta jafn mikið og oft áður, en sem fyrr segir var hann stífdekkaður af heimamönnum.

"Ég skaut ekki nema tvisvar sinnum í fyrri hálfleik enda var KR að spila góða vörn. Ég var ekkert að þröngva skotum og lét bara aðra um þetta," sagði Logi.

"Ég fann samt að maður verður svolítið þreyttur þegar maður er yfirdekkaður. Þá á maður ekki að vera taka of mikið af erfiðum skotum."

Oddur Rúnar Kristjánsson kom frá ÍR um áramótin og hefur tekið við leikstjórandahlutverkinu. Hann er skotglaður mjög og skoraði 19 stig í dag.

"Það er gott og mikilvægt að hafa skotmann eins og Odd með sér þegar ég er tekinn úr umferð og yfirdekkaður allan völlinn. Eðlilega með einn útlending hefði þetta ekki verið jafn slæmt þó ég var ekki að skora því maður á ekki bara að skjóta til að skjóta," sagði Logi Gunnarsson.

Úr leiknum í kvöld. vísir/ernir

Brynjar Þór: Tapið svíður enn þá
"Mér fannst við alltaf vera með undirtökin í leiknum en Oddur og Haukur spiluðu frábærlega og héldu Njarðvík á lífi," sagði Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, við Vísi eftir leikinn.

Brynjar skoraði 16 stig fyrir KR í kvöld og kom virkilega sterkur inn í fjórða leikhluta þar sem þriggja stiga körfur hans fóru langt með að ganga frá leiknum.

"Þeir hittu stórum skotum allan leikinn og svöruðu öllu sem við gerðum á meðan við hittum aldrei stóru skotunum sem gátu komið okkur fyrr í þægilega forystu," sagði Brynjar Þór, sem vonast til að KR-liðið fari að detta almennilega í gírinn.

"Við erum ekki enn búnir að hitta á leik þar sem allt liðið er að hitta og allir eru á róli. Ég hlakka mikið til þess að það gerist."

"Við erum að spila flotta vörn og yfirleitt voru þetta Oddur eða Haukur sem skoruðu flottar körfur. Hjörtur og Ólafur voru reyndar flottir líka. En við sjálfir eigum helling inni, sérstaklega í sókninni."

KR-liðið er í toppbaráttu Dominos-deildarinnar eins og búist var við en er búið að tapa þremur leikjum sem kemur mörgum á óvart. Liðið hefur verið án lykilmann stóran hluta tímabilsins.

"Þetta er búið að vera erfiður vetur, alveg sá erfiðasti undanfarin þrjú ár. Við erum að glíma við mikil meiðsli og aldrei náð að stilla upp okkar sterkasta liði. Það er kominn tími á að allir verði heilir því þá erum við svakalega sterkir," sagði Brynjar Þór.

Brynjar Þór segist hafa gaman að bikarnum og langar fátt meira en að komast aftur í Höllina og svara fyrir tapið gegn Stjörnunni í fyrra.

"Tapið í fyrra svíður enn þá. Það er ekki hægt að segja neitt annað. Maður fær tár í augun við að hugsa um þann leik. Það var hræðilegt. Við viljum komast aftur í Höllina og svara fyrir þetta," sagði Brynjar Þór.

"Þegar maður er búinn að spila tíu ár í deildinni eru þetta leikirnir sem standa upp úr. Maður hlakkar kannski ekki beint til einhverja leikja í nóvember en fyrir svona leiki fær maður fiðring," sagði Brynjar Þór Björnsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira