Handbolti

Þeir yngri þurfa að fá tækifæri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristínu Guðmundsdóttur finnst Arnór Atlason hafa dalað og yngri menn eigi að fá sénsinn.
Kristínu Guðmundsdóttur finnst Arnór Atlason hafa dalað og yngri menn eigi að fá sénsinn. Fréttablaðið/Anton Brink

Strákarnir okkar í íslenska handboltalandsliðinu hefja leik á Evrópumótinu í Póllandi á föstudaginn þegar þeir mæta sterku liði Noregs klukkan 17.15. Undirbúningi fyrir mótið lauk formlega á sunnudaginn þegar íslensku strákarnir svöruðu fyrir tap laugardagsins með þriggja marka sigri á lærisveinum Dags Sigurðssonar í þýska landsliðinu.

Enn eru nokkur spurningamerki í kringum liðið, en Aron Kristjánsson hefur verið að prófa sig áfram í varnarleiknum, verið að fikra sig áfram með eina skiptingu og reynt að gefa fleiri mönnum tækifæri. Fréttablaðið leitaði til þriggja sérfræðinga til að taka stöðuna á liðinu nú þremur dögum fyrir fyrsta leik.

Þetta eru Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram í Olís-deild karla, Kristín Guðmundsdóttir, stórskytta Vals í Olís-deild kvenna, og Gunnar Andrésson, fyrrverandi landsliðsmaður og þjálfari nýliða Gróttu í Olís-deild karla.

Lélegir gegn Portúgal
„Það hefur verið stígandi í þessu eftir fyrsta leikinn gegn Portúgal,“ segir Guðlaugur. „Við sáum það í leikjunum um helgina að vörnin er að þéttast og hreyfingarnar eru öruggari. Það mikilvægasta í þessu er að loka vörninni og fá upp markvörslu.“

Ísland með fullmannað lið tapaði óvænt fyrir Portúgal með fjórum mörkum en þegar minni spámenn fengu að spreyta sig daginn eftir hafði Ísland sigur. „Seinni leikurinn gaf okkur mikið þar sem Rúnar Kárason og Ólafur Guðmundsson komu til dæmis sterkir inn og þeir gerðu það aftur um helgina,“ segir Guðlaugur, en Kristín hafði engan húmor fyrir tapinu gegn Portúgal.

„Ég held að þetta eigi eftir að verða fínt hjá strákunum á EM þegar stóru póstarnir í liðinu fara að taka þetta alvarlega og reyna aðeins meira á sig. Mér fannst lykilmenn geta reynt aðeins meira á sig gegn Portúgal. Það var allavega mín upplifun. Það var eins og þessi leikur skipti ekki máli. Við erum með svo rosalega góða leikmenn en þeir voru sumir hverjir bara lélegir á móti Portúgal,“ segir Kristín.

Snorri Steinn Guðjónsson. vísir/stefán

Varnarleikurinn áhyggjuefni
Varnarleikurinn hefur verið mikill höfuðverkur fyrir Aron Kristjánsson í undirbúningi EM og ekki hjálpar til að Bjarki Már Gunnarsson, sem hefur undanfarin misseri stimplað sig rækilega inn í landsliðið, hefur verið meiddur og er í litlu sem engu leikformi.

„Spurningamerkin eru í varnarleiknum,“ segir Gunnar Andrésson. „Ég persónulega hef minni áhyggjur af sóknarleiknum en í heildina horfir þetta þokkalega við mér. Það er ekki skrítið að Aron hafi prófað svona margar uppstillingar í varnarleiknum um helgina því hann er líklega ekki alveg viss um hver hans sterkasta uppstilling er.“

Eins og alltaf er bent á vörn og markvörslu sem lykilþætti: „Ef við náum að vera þéttir í varnarleiknum og fá smá markvörslu getur þetta orðið gott mót. En við þurfum að halda úti gæðum í vörninni allan leikinn og ekki vera að skipta tveimur á milli varnar og sóknar í 60 mínútur. Ef við komumst hjá því getum við staðið í hvaða liði sem er og hreinlega unnið alla,“ segir Gunnar.

Arnór Atlason stýrði sóknarleik íslenska liðsins á móti Þýskalandi í sigurleiknum og gerði það vel. Hann skilaði líka nokkrum mörkum og gefur Aroni kannski enn einn jákvæðan hausverkinn þegar kemur að því að velja á milli hans og Snorra Steins.

„Arnór er beinskeyttari leikmaður en Snorri er meiri spilari og góður að leggja upp leikinn. Það er meiri skotógn af Arnóri í dag og mér fannst hann líka vilja bíta frá sér í þessum seinni leik gegn Þýskalandi,“ segir Guðlaugur.

Yngri menn eru einnig á barmi liðsins og að gera sig meira gildandi en Kristín vill sjá þá fá fleiri og stærri tækifæri. „Við eigum svo marga ógeðslega góða unga stráka sem verða að fá tækifæri,“ segir Kristín.

„Munurinn á karlaliðinu og kvennaliðinu er að þarna eru að koma upp öflugir strákar og þeir hafa meira sjálfstraust en stelpurnar á þessum yngri árum. Þeir eru tilbúnari í þetta,“ segir Kristín Guðmundsdóttir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira