Fótbolti

Arnór Ingvi: Stór gluggi í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Keflvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason, sem varð Svíþjóðarmeistari með Norrköping í haust, verður í byrjunarliði Íslands sem mætir Finnlandi í æfingaleik í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag.

Sjá einnig: Eiður Smári fyriliði gegn Finnlandi

Arnór Ingvi sagði að það hefði haft mikla þýðingu fyrir sig að vera bæði valinn í landsliðið og fá að spila með Íslandi í vináttulandsleikjunum gegn Póllandi og Slóvakíu í nóvember.

„Sérstaklega að fá að koma inn þegar það gengur svona vel. Það var gaman að fá að byrja báða leiki þó svo að sá seinni hafi verið stuttur,“ sagði Arnór Ingvi í viðtali sem birtist á Youtube-síðu KSÍ en hann fór meiddur af velli í Slóvakíu strax á nítjándu mínútu.

Hann á leiki að baki með öllum yngri landsliðum Íslands en segist hafa ekki komið almennilega við sögu fyrr en með U-21 liðinu.

„Eftir það var ég fyrst og fremst að einbeita mér að því að standa mig vel með mínu félagsliði. Maður vill alltaf og vonar [að komast í A-landsliðið] en það er heldur ekki gott að gera sér of miklar væntingar ef kallið kemur ekki,“ segir Arnór Ingvi.

Hann segir að leikirnir nú í janúar, sem verða þrír talsins hjá íslenska landsliðinu, séu stór gluggi fyrir leikmenn sem ætla að sanna sig fyrir landsliðsþjálfurunum og freista þess að komast á EM í sumar.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira