Körfubolti

Jón Arnór missti af fjórða leiknum í röð | Valencia 27-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/EPA

Bakmeiðsli Jóns Arnórs frá því um áramótin ætla að há kappanum langt fram í janúar en hann missti af leik Valencia og þýska liðsins EWE Baskets Oldenburg í Evrópukeppninni í kvöld.

Valencia vann þá 19 stiga útisigur á EWE Baskets Oldenburg, 108-89, en spænska liðið var átta stigum yfir í hálfleik, 54-46.

Jón Arnór Stefánsson hefur nú misst af fjórum síðustu leikjum liðsins. Hann meiddist í sigurleik á Kanaríeyjum milli jóla og nýárs og hefur nú misst af tveimur deildarleikjum og tveimur Evrópuleikjum.

Sigurganga Valencia hefur haldið áfram án íslenska landsliðsmannsins en sigurinn í kvöld var 27. sigurleikur liðsins í röð í deild og Evrópukeppni.

Frakkinn Antoine Diot var stigahæstur hjá Valencia með 25 stig en hann gaf einnig átta stoðsendingar og hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum.

Valencia-liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlakeppni 32 liða úrslitunum en efstu tvö liðin úr þessum fjögurra liða riðli komast í átta liða úrslit keppninnar.

Þjóðverjarnir voru búnir að vinna níu stiga sigur á franska liðinu Limoges í fyrsta leik á sama tíma og Valencia vann 16 stiga sigur á PAOK frá Grikklandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira