Lífið

Ferðasagan í heild sinni: Hafði ekki tíma fyrir söknuð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Arna Ýr skömmu eftir að hún var krýnd Ungfrú Ísland.
Arna Ýr skömmu eftir að hún var krýnd Ungfrú Ísland.

„Ferðin til Kína gekk nokkuð vel miðað við að ég var að ferðast ein. Fyrst fór ég til Amsterdam og þar tók við ellefu tíma flug til Peking en þarf hófust vandræðin,“ segir Arna Ýr Jónsdóttir, ungfrú Ísland, á Snapchat reikningi keppninnar. Arna fór í desember til Kína til að keppa í keppninni Ungfrú heimur en það gekk ekki þrautalaust fyrir sig.

Frá Peking átti Arna tengiflug til Sanya þar sem keppnin var haldin. Þar sem hún var að koma úr alþjóðaflugi og á leið í innanlandsflug var ekki hægt að bóka töskur hennar alla leið. Ungfrú Ísland stóð því á flugvelli í Kína, búin að stimpla sig út af alþjóðlega hluta hans og gat ekki farið þangað aftur til að sækja töskurnar sínar.

Sjá einnig: Arna Ýr Jónsdóttir er Ungfrú Ísland 2015

„Ég vældi ábyggilega í hálftíma í öryggisverðinum um að hleypa mér aftur inn á svæðið og hann lét undan eftir mikið suð. Þá kom í ljós að aðeins tvær af töskunum þremur höfðu skilað sér,“ segir Arna. Þegar hér er komið við sögu eru minna en hálftími í flugið hennar. Það var úr að taskan myndi skila sér síðar.

Hrakförunum á flugvellinum var hins vegar ekki lokið því þegar kom að því að fara í flugið til Sayna kom í ljós að það hafði farið á undan henni. „Ég var með konu til að hjálpa mér og þegar hún ætlar að innrita mig í flugið byrjar hún að rífast við starfsmanninn á fullu. Þau rifust og rifust og ég skildi ekki neitt. Það var þarna önnur stelpa í svipuðum vandræðum sem ég hleypti á undan mér.“

Þegar kom að því að finna nýtt flug fyrir þær fékk stúlkan á undan henni síðasta sætið í vélinni. „Klukkan var níu og næsta flug átti ekki að fara fyrr en átta. Ég stóð því eftir sársvöng eftir langt ferðalag. Facebook virkaði ekki og ekki Snapchat og ekki kortin mín heldur. Ég hreinlega vissi ekki hvað ég ætti að gera.“

Arna Ýr á munaðarleysingjahælinu en henni fannst heimsóknin á það hápunktur ferðarinnar. mynd/aðsend

Sveiflaði ímynduðu sverði í dansprufu
Á endanum skilaði Arna sér til Sanya en um leið og hún lenti tók við dagskrá. Keppendum var skipt niður í fjóra hópa sem áttu að vera saman í gegnum keppnina. Alls voru keppendur í mánuð í Kína og var rútínan að morgunmatur var klukkan sex og síðan tóku við æfingar fram að hádegismat. Eftir mat voru ýmsar myndatökur og undirbúningi sinnt og að kvöldmat loknum tóku æfingar við á ný fram að háttatíma. 

„Á öðrum degi var hæfileikakeppnin og prufur fyrir þjóðdansana sem átti að sýna á úrslitakvöldinu sjálfu. Í töskunni sem mig vantaði, og skilaði sér ekki fyrr en eftir tæpa viku, var meðal annars að finna alla skóna mína og förðunardótið auk búningsins sem ég ætlaði að klæðast í þjóðdansinum. Það var víkingagalli og honum fylgdi sverð sem mig skorti. Þannig ég stóð þarna eins og kjáni og sveiflaði höndunum og reyndi að útskýra að þarna ætti að vera sverð,“ segir Arna og lýsir atvikinu sem hinu vandræðalegasta.

Önnur keppni sem stúlkurnar taka þátt í er íþróttakeppni. Fáar komast að í keppnina sjálfa og var því haldið píptest til að velja hverjar fengju að keppa. Í því ruglaðist Arna á rauðu mynstri í gólfteppinu og rauðri línu sem markaði línurnar sem þær áttu að fylgja. Hún var dæmd úr leik og fékk ekki að taka þátt í íþróttunum.

Sjá einnig: Arna Ýr var furðu lostin: Horfðu stóru stundina í Ungfrú Ísland

„Ég klúðraði því sem ég var sterkust í,“ segir Arna en hún hefur æft frjálsar íþróttir í sjö ár. Það var því ennþá sárara þegar í ljós kom að það var einmitt keppt í frjálsum. „Ég horfði á hinar stelpurnar hlaupa og keppa í langstökki og ég þurfti að fylgjast með. Það var ömurlegt því ég átti miklu betri árangur en þær allar. Þetta var eini dagurinn þarna úti sem mér leið illa.“

Í stað þess að taka þátt í íþróttunum heimsótti Arna kínverskt munaðarleysingjahæli fyrir fötluð börn sem hafa verið yfirgefin af foreldrum sínum. Hún lýsir meðal annars ungum dreng sem hafði fæðst án nefs og algerlega holgóma. Stúlkurnar stóðu fyrir söfnun handa börnunum. „Þetta er líklega það í allri keppninni sem mér þótti vænst um og ég mun muna eftir alla tíð.“

Meðal annarra hluta sem Arna nefnir er þegar hún fékk að smakka sex milljón króna túnfisks sashimi og níutíu mínútna sársaukafullri myndatöku með ungfrú heim árið 2014. 

„Þetta var mjög stíf dagskrá og það kom aldrei frídagur sem eftir á að hyggja er mjög gott. Áður en ég fór út kveið ég því mjög að vera frá öllum, fjölskyldunni og kærastanum mínum, í heilan mánuð en tíminn var svo fljótur að líða og það var svo margt að gera að maður hafði ekki tíma til að velta sér upp úr slíku. Mánuðurinn leið eins og vika. Ég lærði rosalega mikið af þessu og þetta er reynsla sem mun nýtast mér alla mína ævi.“


Tengdar fréttir

Komin með leið á sviðsljósinu í bili

Komin með nóg af sviðsljósinu í bili Arna Ýr Jónsdóttir var hársbreidd frá að komast inn í topp tuttugu úrslitahópinn í Miss World 2015, en hún lenti í 21.-22. sæti í keppninni. Hún leggur sprotann á hilluna og tekur upp skólabækurnar á nýju ári.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira