Körfubolti

Þriðja tap meistaranna á tímabilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty

NBA-meistararnir í Golden State töpuðu aðeins sínum þriðja leik á tímabilinu í nótt þegar liðið mætti Denver á útivelli.

Denver vann nauman sigur, 112-110, þrátt fyrir að Stephen Curry hafi átt stórleik og skorað 38 stig. Denver komst á mikinn sprett undir lok þriðja leikhluta og náði tíu stiga forystu í upphafi fjórða.

Curry setti niður 20 stig í fjórða leikhluta en það dugði ekki til. Stigahæstur hjá Denver var Danilo Gallinari með 28 stig en Will Barton bætti við 21 stigi.

Oklahoma City vann Dallas, 108-89, með 29 stigum og tíu fráköstum frá Kevin Durant. Sigur Oklahoma var öruggur en Rick Carlisle, þjálfari Dallas, ákvað að hvíla allt byrjunarliðið í leiknum en Dallas tapaði fyrir Cleveland í framlengdum leik kvöldið áður.

Russell Westbrook var rekinn af velli í öðrum leikhluta. Hann fékk þá sína aðra tæknivillu í leiknum eftir að hann lenti í útistöðum við J.J. Barea. Westbrook náði ekki að skora stig í leiknum.

Úrslit næturinnar:
Charlotte - Atlanta 107-84
Washington - Milwaukee 106-101
Brooklyn - New York 110-104
Boston - Indiana 103-94
Houston - Minnesota 107-104
Oklahoma City - Dallas 108-89
Denver - Golden State 112-110
Portland - Utah 99-85
Sacramento - New Orleans 97-109
LA Clippers - Miami 104-90

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira