Körfubolti

Þriðja tap meistaranna á tímabilinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
NBA-meistararnir í Golden State töpuðu aðeins sínum þriðja leik á tímabilinu í nótt þegar liðið mætti Denver á útivelli.

Denver vann nauman sigur, 112-110, þrátt fyrir að Stephen Curry hafi átt stórleik og skorað 38 stig. Denver komst á mikinn sprett undir lok þriðja leikhluta og náði tíu stiga forystu í upphafi fjórða.

Curry setti niður 20 stig í fjórða leikhluta en það dugði ekki til. Stigahæstur hjá Denver var Danilo Gallinari með 28 stig en Will Barton bætti við 21 stigi.

Oklahoma City vann Dallas, 108-89, með 29 stigum og tíu fráköstum frá Kevin Durant. Sigur Oklahoma var öruggur en Rick Carlisle, þjálfari Dallas, ákvað að hvíla allt byrjunarliðið í leiknum en Dallas tapaði fyrir Cleveland í framlengdum leik kvöldið áður.

Russell Westbrook var rekinn af velli í öðrum leikhluta. Hann fékk þá sína aðra tæknivillu í leiknum eftir að hann lenti í útistöðum við J.J. Barea. Westbrook náði ekki að skora stig í leiknum.

Úrslit næturinnar:

Charlotte - Atlanta 107-84

Washington - Milwaukee 106-101

Brooklyn - New York 110-104

Boston - Indiana 103-94

Houston - Minnesota 107-104

Oklahoma City - Dallas 108-89

Denver - Golden State 112-110

Portland - Utah 99-85

Sacramento - New Orleans 97-109

LA Clippers - Miami 104-90

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×