Handbolti

Vignir: Sérstaklega sætt fyrir mig að vinna Noreg

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vignir Svavarsson skorar í kvöld.
Vignir Svavarsson skorar í kvöld. vísir/valli

Vignir Svavarsson var eðlilega kampakátur þegar Vísir ræddi við hann eftir 26-25 sigur strákanna okkar gegn Noregi á EM 2016 í Póllandi.

Leikurinn var spennandi frá byrjun til enda og réðst á síðustu sekúndunni. „Þetta var hörkuleikur og alveg frábært að klára þetta. Við vorum að spila hörkuvörn þannig það hefði verið synd að fá ekki tvö stig út úr þessum leik,“ sagði varnarjaxlinn við Vísi eftir leikinn.

Sjá einnig: Alexander: Ég er með gæsahúð

„Mér fannst þetta allt í lagi hjá okkur í heildina. Norðmenn eru stórir og sterkir og þeir spiluðu upp á það allan leikinn. Þeir eru góðir maður og mann og mér fannst við gera ágætlega í að stoppa þá þó það megi gera betur.“

„Þetta er allt á uppleið hjá okkur og ég var ánægður með þetta í kvöld.“

Íslenska liðið fékk tvö tækifæri í seinni hálfleik til að ganga frá leiknum en alltaf hengu Norðmenn inn í leiknum. „Það er bara eins og það er. Þetta spilaðist bara svona í kvöld,“ sagði Vignir.

Sjá einnig: Arnór: Við áttum að loka þessu fyrr

„Við erum alltaf í hörkuleikjum við Noreg. Þannig hefur það bara verið og þetta var engin undantekning. Þetta var rosalega sætur sigur.“

Vignir segir það mjög gaman fyrir sig að vinna Noreg. „Helmingurinn af fjölskyldunni minni býr í Noregi þannig þetta er sérstaklega gaman fyrir mig. Þess vegna fagnaði ég svona rosalega,“ sagði hann.

Vignir hafði fulla trú á Björgvin Páli í lokaskotinu. „Ég hafði engar áhyggjur af skotinu. Ég var byrjaður að fagna áður en en það var tekið,“ sagði Vignir Svavarsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira