Sport

Manning mætir Brady á sunnudag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Peyton Manning er kominn áfram með lið sitt.
Peyton Manning er kominn áfram með lið sitt. Vísir/Getty

Denver Broncos er komið áfram í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar og mætir þar New England Patriots á sunnudagskvöldið. Þetta varð ljóst eftir 23-16 sigur Denver á Pittsburgh Steelers í gærkvöldi.

Það er því ljóst að tveir af bestu leikstjórnandum sögunnar munu mætast í enn eitt skiptið á sunnudagskvöldið þegar Peyton Manning mætir Tom Brady.

Þetta er í sautjánda skipti sem þessir kappar mætast en rimma þeirra er ein sú allra frægasta í sögu bandarískra íþrótta.

Pittsburgh var með undirtökin lengi vel í leiknum í nótt og var yfir, 13-12, þegar innan við tíu mínútur voru eftir af leiknum. Fitzgerald Toussaint, hlaupari Pittsburgh, tapaði þá boltanum og Denver skoraði skömmu síðar eina snertimark sitt í leiknum er hlauparinn CJ Anderson skoraði af stuttu færi.

Hvorki Manning né Ben Roethlisberger, leikstjórnandi Pittsburgh, köstuðu fyrir snertimarki í leiknum í nótt sem segir sitt um gang leiksins.

Sparkarinn Brandon McManus skoraði hins vegar fimm vallarmörk í leiknum og það síðasta tryggði endanlega sigur Denver í leiknum.

Arizona Cardinals og Carolina Panthers eigast við í úrslitaleik Þjóðardeildarinnar en báðir leikirnir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Sunnudagur 24. janúar:
20.05: Denver Broncos - New England Patriots
23.40: Carolina Panthers - Arizona Cardinals

NFL

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira