Fótbolti

Neymar verður bráðum kennt um dauða Kennedy

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar.
Neymar. vísir/getty

Carles Villarubi, varaforseti spænska fótboltaliðsins Barcelona, segir áframhaldandi lögsóknir gegn Neymari, einni af stjörnum liðsins, ósanngjarnar.

Neymar var á dögunum skipað að mæta í dómsal í febrúar þar sem félagaskiptamál hans verður tekið fyrir enn á ný.

Maðkur er talinn hafa verið í mysunni þegar Barcelona keypti Neymar frá Santos í Brasilíu, en það mál virðist ætla að lifa nokkuð lengi.

Villarubi er orðinn mjög þreyttur á „vélinni“, eins og hann orðar það, sem virðist finna allt á móti Neymari og stundar áróður gegn honum.

„Á hverjum degi spilar Neymar betur og fólk dáist að frammistöðu hans. Þetta verður bara flóknara,“ segir Vllarubi í viðtali við RAC-1.

„Það er vél sem vinnur á móti honum og ég er viss um að hún mun segja bráðum að Neymar var í Dallas þegar Kennedy var ráðinn af dögum,“ segir Carles Villarubi.

Neymar hefur farið á kostum með Barcelona á tímabilinu. Hann er búinn að skora 16 mörk og gefa tólf stoðsendingar í deildinni og bæta við tveimur mörkum og þremur stoðsendingum í Meistaradeildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira