Handbolti

Tapið á móti Króatíu í kvöld hefur slæm áhrif á þrjú stórmót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson í leiknum í kvöld.
Stefán Rafn Sigurmannsson í leiknum í kvöld. vísir/valli

Tap íslenska landsliðsins á móti Króatíu á EM í kvöld þýðir ekki bara að liðið er úr leik og spilar ekki fleiri leiki á Evrópumótinu í Póllandi. Þessi úrslit í kvöld hafa líka mögulega slæm áhrif á tvö önnur stórmót til viðbótar.

Auk þess að vera úr leik á EM 2016 eftir aðeins þrjá leiki þá á íslenska liðið ekki lengur möguleika á því að komast á Ólympíuleikana í Ríó í ágúst og þá eru líkur á því að liðið verði í neðri styrkleikaflokki í undankeppni HM í Frakklandi sem gerir liðinu mun erfiðara fyrir að komast á næsta HM.

Strákarnir settu stefnuna á fjórðu Ólympíuleikana í röð en nú er orðið ljóst að í fyrsta sinn síðan í Sydney 2000 verður Ísland ekki með handboltalið á leikunum.

Verði íslenska liðið í neðri styrkleikaflokki fyrir dráttinn í umspilið um laus sæti á heimsmeistaramótinu í Frakklandi þá fær liðið mögulega leiki á móti einni af bestu handboltaþjóðum Evrópu sem er mjög erfitt verkefni.  

Serbía endaði í 13. sæti á EM 2014 og var þá í efri styrkleikaflokki þegar dregið var í umspilið. Liðin sem enduðu í 14. til 16. sæti á EM í Danmörku 2014, Noregur, Tékkland og Svartfjallaland, voru öll í neðri styrkleikaflokki.

Frakkar eru þegar komnir inn á HM á heimavelli árið 2017 og þrjár efstu þjóðirnar á EM 2016 komast einnig beint á HM og sleppa við umspilið. Næstu átta þjóðir fara hinsvegar í umspilið og gætu orðið mótherjar íslenska liðsins.

Íslenska liðið tapaði með níu marka mun fyrir Króatíu í kvöld og það gæti farið svo að Ísland mæti Króatíu í umspilinu í vor.  Það eru margar aðrar sterkar þjóðir sem þurfa að fara umspilsleiðina inn á HM.

Fari allt á versta veg mun íslenska landsliðið fyrst eiga möguleika á því að komast á stórmót þegar EM fer fram í Króatíu í janúar 2018.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira