Erlent

Segja ISIS hafa tapað þriðjungi af yfirráðasvæði sínu

Samúel Karl Ólason skrifar
ISIS eru sagðir hafa misst 40 prósent af yfirráðasvæði sínu í Írak.
ISIS eru sagðir hafa misst 40 prósent af yfirráðasvæði sínu í Írak. Vísir/EPA
Bandalagið sem berst gegn Íslamska ríkinu segir að hryðjuverkasamtökin hafi misst um þriðjung af yfirráðasvæði sínu í Írak og Sýrlandi. Talsmaður bandalagsins, sem leitt er af Bandaríkjunum, segir að vígamenn ISIS séu í varnarstöðu. Alls hafa samtökin misst um 40 prósent af svæði sínu í Írak og 20 prósent í Sýrlandi.

Síðan bandalagið hóf loftárásir árið 2014 hafa vopnaðar sveitir Kúrda barist gegn ISIS í norðurhluta Írak, þar sem þeir hafa sótt fram á stórum svæðum. Í suðurhluta landsins hefur herinn og vopnaðar sveitir súnníta tekið borgir eins og Tikrit og Ramadi af ISIS.

Ofurstinn Steve Warren sagði blaðamönnum í dag að bandalagið telji ISIS hafa veikst verulega. Það sjáist meðal annars í því að samtökin hafi ekki náð að leggja undir sig ný svæði frá því í maí, þegar þeir tóku Ramadi.

„Hernaðarlega séð, þá eiga þeir í basli,“ sagði Warren.

Samtökin gera þó enn reglulega árásir víða í Írak og nú síðast féllu ellefu manns í bílsprengju í Haditha. Þá halda samtökin enn stórum svæðum í vesturhluta Írak. Þar á meðal er borgin Mosul, sem er önnur stærsta borg landsins.

Þá eru vígamenn ISIS einnig virkir í Egyptalandi, Líbýu, Jemen og í Afganistan.


Tengdar fréttir

Bandaríkin gefa í gegn ISIS

Þeir sem til þekkja segja að með þessu sé Bandaríkjaher að viðurkenna að loftárásir síðustu mánaða hafi litlu skilað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×