Handbolti

Sigurganga Dags og þýska landsliðsins heldur áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins.
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins. Vísir/Getty

Þýska karlalandsliðið í handbolta vann sjö marka sigur á Túnis, 37-30, í vináttulandsleik í Stuttgart í kvöld en þýska liðið er að undirbúa sig fyrir Evrópumótið í Póllandi sem hefst seinna í þessum mánuði.

Dagur Sigurðsson stýrði liðinu til sigurs í sjötta leiknum í röð en framundan eru síðan tveir leikir við Ísland í Þýskalandi um komandi helgi. Það verða síðustu leikir beggja þjóða fyrir EM.

Christian Dissinger, lærisveinn Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel, var markahæstur í þýska liðinu með átta mörk en þeir Tobias Reichmann og Steffen Weinhold skoruðu báðir fimm mörk.

Túnisbúar komust þremur mörkum yfir í byrjun leiks, 6-3 og 7-4, en þýska liðið var búið að jafna metin í 7-7 eftir tíu mínútna leik.

Þýsku leikmennirnir voru með frumkvæðið það sem eftir lifði hálfleiksins en komst aldrei meira en tveimur mörkum yfir. Þýskaland var síðan 20-18 yfir í hálfleik þar sem Christian Dissinger var búinn að skora sex mörk fyrir Þjóðverja.

Þýska liðið var síðan mun sterkar í seinni hálfleiknum sem liðið vann 17-12.Fleiri fréttir

Sjá meira