Enski boltinn

Klopp: Þurfum að sleppa úr þessari meiðslahringekju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, í leiknum í kvöld.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var sáttur með 1-0 sigur á Stoke í fyrri undanúrslitaleik liðanna í enska deildabikarnum en sá líka tvo leikmenn togna aftan í læri í fyrri hálfleiknum.

„Mér líður skringilega. Ég er stoltur af liðinu fyrir að koma til baka eftir tapið á móti West Ham. Við unnum 1-0 en misstum tvo menn í slæm meiðsli og við vorum því ekki bara heppnir í kvöld," sagði Jürgen Klopp við Sky Sports eftir leikinn.

„Nú eru þrír miðverðir meiddir hjá okkur og sá eini sem er í lagi fékk síðan krampa undir lokin," sagði Jürgen Klopp. Dejan Lovren meiddist í kvöld, Mamadou Sakho meiddist um síðustu helgi og Kolo Touré píndi sig í gegnum lokamínútur leiksins.

Sjá einnig: Jordon Ibe hetja Liverpool á móti Stoke

„Stærsta vandamálið eftir þennan leik er að við vorum að missa tvo og jafnvel þrjá leikmenn í meiðsli. Þetta er afar pirrandi og við erum að glíma við alltof mörg meiðsli. Leikmenn eru að koma til baka eftir meiðsli og aðrir eru að meiðast. Þetta er hringekja sem við verðum að komast út úr," sagði Klopp.

„Það eina sem ég get samt gagnrýnt varðandi leik liðsins er áfram það hvernig við erum að klára færin. Skipulagið var gott, við spiluðum góðan fótbolta en það vantaði mörkin," sagði Klopp.

Philippe Coutinho meiddist eftir aðeins 18 mínútur. Vísir/Getty
Dejan Lovren fór meiddur af velli á 34. mínútu. Vísir/Getty


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira