Sport

Reyndi við fréttamann í miðju viðtali

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gayle er hér í umræddu viðtali.
Gayle er hér í umræddu viðtali. Vísir/Getty

Krikketmaðurinn Chris Gayle hefur verið harkalega gagnrýndur síðustu daga fyrir framkomu sína gagnvart fréttamanni sem tók viðtal við hann í beinni útsendingu.

Atvikið átti sér stað á mánudag. Gayle var þá í viðtali hjá Melanie McLaughlin í ástralskri sjónvarpsstöð og stakk upp á því að þau myndu fá sér drykk eftir leikinn.

„Ég vildi sjá augun þín í fyrsta sinn. Vonandi munum við vinna þennan leik og við getum svo fengið okkur drykk eftir hann. Ekki roðna, elskan,“ sagði Gayle í viðtalinu sem hefur vakið mikil viðbrögð.

Félag hans, Melbourne Renegades, sektaði Gayle umsvifalaust um eina milljón króna vegna framkomu hans þrátt fyrir að hann hafi stuttu eftir viðtalið beðist afsökunar á hegðun sinni.

Gayle er í enn frekari vandræðum því nú hafa ásakanir komið fram þess efnis að hann hafi berað sig fyrir starfsmanni landsliðs síns á heimsmeistarakeppninni í Krikket í fyrra. Gayle leikur með Vestur-Indíum.

Umræddur starfsmaður mun samkvæmt fjölmiðlum í Ástralíu hafa kvartað undan framkomu Gayle en forráðamenn landsliðsins hafa ekki tjáð sig opinberla um ásakanirnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira