Erlent

Sameinuðu þjóðirnar íhuga að beita Norður-Kóreu frekari þvingunum

Atli Ísleifsson skrifar
Frá norður-kóresku höfuðborginni Pyongyang.
Frá norður-kóresku höfuðborginni Pyongyang. Vísir/AFP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna íhugar nú að beita Norður-Kóreu frekari þvingunum eftir að fréttir bárust af því að Norður-Kóreumenn hafi sprengt vetnissprengju á kjarnorkutilraunasvæði sínu í nótt.

AFP hefur þetta eftir sendiherra Bretlands gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Sprengingin kom fram á jarðskjálftamælum í nágrannalöndunum og virðist skjálftinn hafa verið 5,1 stig við upptökin.

Boðað var til neyðarfundar í öryggisráðinu eftir að fréttir bárust af sprengjunni.

Öryggisráðið samþykkti í október 2007 að beita landinu viðskiptaþvingunum, fimm dögum eftir að fyrsta kjarnorkusprengja landsins var sprengd í tilraunaskyni. Þvinganirnar fólu meðal annars í sér bann við sölu vopna til landsins.

Vetnissprengja notar kjarnasamruna til þess að framkalla mun kraftmeiri sprengingu en verður þegar kjarnorkusprengja springur og því ljóst að Norður Kóreumenn hafi tekið stórstígum framförum í vopnaþróun sinni reynist þetta rétt.

Erlendir sérfræðingar draga fullyrðingarnar þó mjög í efa og segja líklegra að um venjulega kjarnorkusprengingu hafi verið að ræða.


Tengdar fréttir

Norður-Kóreumenn segjast hafa sprengt vetnissprengju

Stjórnvöld í Norður Kóreu fullyrða að þeim hafi tekist að sprengja vetnissprengju á kjarnorkutilraunasvæði sínu í nótt. Sprengingin kom fram á jarðskjálftamælum í nágrannalöndunum og virðist skjálftinn hafa verið 5,1 stig við upptökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×