Körfubolti

Jakob sjóðheitur fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Sigurðarson.
Jakob Sigurðarson. Vísir/Stefán

Ein af fimm þriggja stiga körfum Jakobs Sigurðarsonar kom á hárréttum tíma þegar Borås Basket vann þriggja stiga útisigur á Jämtland Basket, 91-88, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Jakob kom Borås liðinu þá yfir í 89-88 með þristi þegar tuttugu sekúndur voru eftir af leiknum en liðsfélagi hans innsiglaði síðan sigurinn á vítalínunni.

Jakob Sigurðarson var stigahæstur í liði Borås ásamt tveimur öðrum en allir skoruðu þeir 19 stig.

Jakob skoraði sín 19 stig á tæpum 35 mínútur en hann hitti meðal annars úr 5 af 6 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Jakob var einnig með 2 fráköst og 2 stoðsendingar.

Borås-liðið var búið að tapa tveimur deildarleikjum í röð og tapaði einnig Evrópuleik í vikunni. Sigurinn í kvöld var því mikilvægur.

Jämtland var tíu stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 29-19, en Jakob og félagar komu sér aftur inn í leikinn með því að vinna annan leikhlutann 25-16.

Seinni hálfleikurinn var síðan æsispennandi og íslenski bakvörðurinn átti mikinn þátt í sigrinum með þessari dýrmætu þriggja stiga körfu í blálokin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira