Körfubolti

Var troðsla tímabilsins á Egilstöðum í kvöld? | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Tobin Carberry átti frábæran leik í kvöld þegar Höttur tryggði sér fyrsta sigur sinn í Domino´s deild karla í körfubolta á tímabilinu.

Tobin Carberry skoraði bara 40 stig í leiknum því hann átti tilþrif leiksins þegar tróð viðstöðulaust í hraðaupphlaupi eftir sendingu frá
Eysteini Bjarna Ævarssyni.

Carberry kom Hetti í 53-45 með þessari frábæru troðslu en hún kom í þriðja leikhlutanum þar sem heimamenn í Hetti fóru á kostum.

Tobin Carberry hitti úr 12 af 22 skotum sínum og var auk stiganna 40 með 6 fráköst, 6 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Ekki slæm byrjun á nýja árinu hjá kappanum.

Hattar-liðið var búið að tapa ellefu fyrstu leikjum sínum í Domino´s deildinni en sýndi á móti Njarðvík í kvöld að liðið er ekki búið að gefast upp þrátt fyrir mótlætið.

Það er hægt að sjá troðslu Tobin Carberry í myndbandinu í spilaranum hér fyrir ofan en það verður betur fjallað um sigur Hattar í Körfuboltakvöldinu sem hefst klukkan 22.00 á Stöð 2 Sport.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira