Innlent

Gjaldeyrishöftin hert í bili

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Frá þingfundi í gær.
Frá þingfundi í gær. Vísir/Stefán
Alþingi var kallað saman klukkan 22 í gærkvöldi til að samþykkja í flýti frumvarp efnahags- og viðskiptanefndar um breytingar á lögum um gjaldeyrishöft. Frumvarpið er fyrirbyggjandi aðgerð og er ætlað að koma í veg fyrir að hægt sé að koma fjármunum úr landi á svig við lög um gjaldeyrishöft áður en frumvarp fjármálaráðherra um 40 prósenta stöðugleikaskatt verður að lögum. Þau verða kynnt í dag.

Því var nauðsynlegt að samþykkja lögin fyrir opnun markaða í dag. Seðlabanki Íslands kom að máli við stjórnvöld og óskaði eftir því að lögunum yrði breytt ekki síðar en fyrir opnun skrifstofu Seðlabankans í dag.

Mikilvægasta ákvæðið í lögunum kveður á um breytingar á heimildum vegna samstæðulána og ábyrgða innan samstæðu, eða eins og segir í lögunum:

„Nauðsynlegt þykir eigi að síður að sporna við þeim möguleika að aðilar innan samstæðna geti komist yfir erlendan gjaldeyri með lántökum og lánveitingum sín á milli til skamms tíma. Með því að taka lán í erlendum gjaldeyri frá öðru félagi innan sömu samstæðu, og selja innlendu fjármálafyrirtæki innlendan gjaldeyri fyrir erlendan til endurgreiðslu lánsins, getur félag sniðgengið almennt bann við gjaldeyrisviðskiptum.“

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sagði í gær eftir fund nefndarinnar að með frumvarpinu væri verið að varðveita þann stöðugleika sem hefði náðst.

„Markmiðið er að sporna við mögulegri sniðgöngu á höftum. Þrátt fyrir það höfum við ekki áhyggjur af sniðgöngu.“


Tengdar fréttir

Vill að Sigmundur útskýri leka í DV

Vill að forsætisráðherra biðji stjórnarandstöðuna afsökunar eftir að hafa sakað hana um að skemma fyrir við afnám hafta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×