Innlent

Allt fór úrskeiðis sem mögulegt var

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir skrifa
Mál Ólafar Þorbjargar dregur dilk á eftir sér. Lögregla og Reykjavíkurborg gera úttekt á málinu.
Mál Ólafar Þorbjargar dregur dilk á eftir sér. Lögregla og Reykjavíkurborg gera úttekt á málinu.
Sérstök úttekt verður gerð á alvarlegu máli Ólafar Þorbjargar Pétursdóttur hjá Reykjavíkurborg og hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ólöf Þorbjörg fannst í bifreið ferðaþjónustu fatlaðra eftir að víðtæk leit hafði verið gerð að henni í borginni á miðvikudagskvöld. Hún er mállaus og þroskaskert með mjög takmarkaða hreyfigetu. Talið er að hún hafi verið í bifreiðinni í allt að sjö tíma.

Lögregla hyggst ræða við ökumann bifreiðarinnar í dag. Í gær fylgdi hún ábendingum frá vitnum um atburðarás dagsins. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hefur verið falið að gera óháða úttekt á aðdraganda, innleiðingu og framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks hjá Strætó.

Mikið af mistökum 

Fjölmörg mistök hafa orðið á síðustu mánuðum í þjónustu ferðaþjónustu fatlaðra. Í byrjun árs var fatlaður maður skilinn eftir fyrir utan heimili sitt. Bílstjórinn neitaði að aka bæði honum og bróður hans frá heimili þeirra til foreldra þeirra. Mennirnir, sem eru þrítugir, voru á leið í mat til foreldra sinna og höfðu báðir pantað sér far með ferðaþjónustunni en þeir eru búsettir á sama stað.

Þann 22. janúar var þroskahömluð og einhverf stúlka skilin ein eftir af ferðaþjónustu fatlaðra þrátt fyrir skýr fyrirmæli um annað. Stúlkunni var ekið úr skammtímavistun, þar sem hún fer í hvíldarinnlögn einu sinni í mánuði, og heim til hennar í Foldahverfi í Grafarvogi þar sem hún var skilin eftir fyrir utan heimilið. Þá hafa fatlaðir oltið úr hjólastólum og illa hefur gengið að koma þeim á áfangastað. Hafa fjölmargir misst af læknistímum, sjúkraþjálfun og öðru. Mistökin eru svo mörg að Strætó bað notendur þjónustunnar opinberlega afsökunar.

Edda Heiðrún Backman leikkona sagði frá því í viðtali við Morgunblaðið að hún hefði lent í því að panta bíl til þess að komast í sundtíma sem er henni mjög mikilvægur. Bíllinn kom klukkutíma of seint og því missti hún af tímanum. Seinna sama dag þurfti hún aftur að panta bíl. Í samtali við Morgunblaðið lýsir hún atvikinu sem tók mjög á hana á þennan hátt: „Þá þurfti ég líka að bíða og bíða. Ég beið svo lengi að ég missti af klósettferð og átti bara að bíða og pissa á mig.“

Fréttamaður Stöðvar 2 elti slóð bifreiðarinnar frá því á miðvikudaginn eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.





Fylltust miklum ótta

Ólöf Þorbjörg gengur í Fjölbrautaskólann við Ármúla. Þaðan fer hún í skipulagt tómstundastarf á vegum Hins hússins ásamt fleira ungu fólki með fötlun. Foreldrar hennar eru ánægðir með það starf sem er á vegum Hins hússins og starfsmenn þar í húsi voru þeim hjálplegir bæði á meðan Ólöf Þorbjörg var týnd og eftir að hún fannst.

Móðir Ólafar Þorbjargar segir hins vegar að allt hafi farið úrskeiðis sem mögulegt var í gær. Þannig tók starfsfólk Hins hússins ekki eftir því að stúlkan var ekki með í félagsstarfinu þann daginn. Vanalega eru þau afar grandvör og hringja í foreldrana ef hún er sein í Hitt húsið.

„Starfinu lýkur klukkan fjögur í Hinu húsinu. Aksturinn tekur hins vegar um klukkustund. Við höfðum því engar áhyggjur fyrr en klukkan var orðin fimm. Þegar hún var ekki komin heim um tíu mínútur yfir fimm þá hringjum við í Hitt húsið. Þá er okkur sagt að hún hafi aldrei komið þangað. Ég fylltist miklum ótta þegar í stað,“ segir móðir hennar og segist hafa strax öskrað á eiginmann sinn. Viðbrögð þeirra hafi verið skjót enda dóttir þeirra bjargarlaus með öllu.

„Pétur hringdi í lögregluna og það var strax byrjað að leita að henni.“

Ætlar að starfa áfram ef það býðst

Þegar Fréttablaðið náði tali af bílstjóranum, Valdimari Jónssyni, sagðist hann ekki vilja tjá sig þar sem hann biði eftir yfirlýsingu vegna málsins. Maðurinn hefur mikla reynslu af akstri, hann byrjaði nýlega að keyra aftur fyrir ferðaþjónustu fatlaðra en hann hefur einnig keyrt strætó. Hann segir mikið álag hafa verið á bílstjórum ferðaþjónustu fatlaðra undanfarnar vikur.

„Þetta verður kannski kornið sem fyllti mælirinn eins og borgarstjórinn sagði og það verður farið að lagfæra eitthvað. Ég bara hef unnið mína vinnu eða reynt það, það sýnir sig á þessu í gær að það hefur ekki verið fullkomið. Þetta er ekki það sem maður óskar eftir allavega.“ Valdimar segist ætla halda áfram að starfa fyrir ferðaþjónustuna bjóðist honum það. „Það er ekki búið að segja mér upp þannig ég veit ekkert enn þá. Ef mér stendur til boða að halda áfram þá geri ég það.“

Stefán Eiríksson fer fyrir neyðarstjórn vegna málsins.



Mannréttindabrot gegn fötluðum

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir breytt fyrirkomulag ferðaþjónustunnar hafa verið illa hugsaða aðgerð þar sem bókhald hafi verið tekið fram yfir fólk.

„Það var búið að benda á að það myndi henta betur að gera þetta að sumri til en það var ekki hlustað á það og þeir hljóta að hafa litið á það þannig að það væri betra fyrir bókhaldið að gera þetta á nýju bókhaldsári. Og núna er þetta allt á skítafloti.“ Hún segir einnig illa hafa verið staðið að því þegar starfsmönnum í þjónustuveri hafi verið sagt upp en þar hafi horfið dýrmæt þekking. „Meðal annars þekking á því hvaða fötlun viðkomandi einstaklingur búi yfir. Þetta eru ólíkir hópar og það hentar ekki það sama öllum.“ Ellen segir það í raun vera mannréttindabrot gegn fötluðum hvernig sé staðið að þessum málum.

Hún hafi heyrt af fjölmörgum óhöppum og slysum á undanförnum vikum.

Neyðarstjórn skipuð

Í gær var haldinn sameiginlegur fundur eigenda og stjórnar Strætó í Ráðhúsi Reykjavíkur. Á honum var lagt til að skipuð yrði sérstök stjórn yfir ferðaþjónustu fatlaðs fólks undir forystu Stefáns Eiríkssonar, sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Í samtali við Fréttablaðið sagðist Stefán leggja til hliðar önnur verkefni til að einbeita sér að því að koma þjónustunni í lag. Stjórnin verður með aðild fulltrúa Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar og Þroskahjálpar.

„Við gefum okkur fjórar vikur til þess að vinna að þessum málum. Okkar hlutverk er að tryggja örugga þjónustu,“ sagði Stefán og sagði stjórnina hafa fullt umboð til þess að gera þær breytingar sem hún telur nauðsynlegar til að bæta úr í þjónustu og framkvæmd. Þá hefur hún einnig fullt umboð til að gera tillögur um breytingar á fyrirkomulagi eða framkvæmd þjónustunnar til framtíðar.

Hitt húsið biðst afsökunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×