Fótbolti

Kristinn bætti meira en 53 ára gamalt met bróðurs Bjarna Fel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sex mínútur. Kristinn Steindórsson byrjaði vel.
Sex mínútur. Kristinn Steindórsson byrjaði vel. Mynd/KSÍ

Kristinn Steindórsson skoraði ekki bara í sínum fyrsta landsleik á móti Kanada heldur tókst honum, með því að skora strax á sjöttu mínútu leiksins, að verða fljótastur til að skora fyrir íslenska landsliðið í tæplega sjötíu ára sögu þess.

Gunnar Felixson, bróðir Bjarna Fel, hafði átt metið í meira en 53 ár eða síðan Gunnar skoraði tvö mörk á móti áhugamannslandsliði Hollands á Laugardalsvellinum 19. júní 1961. Gunnar skoraði mörkin sín á 10. og 40. mínútu en þau komu bæði eftir sendingar frá Þórólfi Beck sem spilaði líka með honum hjá KR.

Það var hins vegar Kópavogssamvinna í marki Kristins, en hann sem gamall Bliki skoraði þá með skalla eftir frábæran undirbúning Rúriks Gíslasonar, sem var uppalinn hjá HK.

Einum leikmanni hafði tekist að jafna met Gunnars á þessum rúmu 53 árum. Ólafur Danivalsson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark tíu mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður á móti Færeyjum á malarvelli í Þórshöfn 16. júní 1976.

29 aðrir landsliðsmenn hafa náð því að skora í sínum fyrsta landsleik en aðeins fjórir þeirra hafa náð því að skora líka í sínum öðrum landsleik. Kristinn fær tækifæri til að bætast í þann hóp í kvöld þegar Ísland og Kanada mætast öðru sinni á Flórída.

Fljótastur til að skora í sínum fyrsta landsleik:

  • 6 mínútur Kristinn Steindórsson á móti Kanada 16. janúar 2015
  • 10 mínútur Gunnar Felixson á móti Hollandi 19. júní 1961
  • 10 mínútur Ólafur Danivalsson á móti Færeyjum 16. júní 1976
  • 16 mínútur Sveinn Teitsson á móti Austurríki 29. júní 1953
  • 16 mínútur Jón R.Jóhannsson á móti Wales 15. ágúst 1966
  • 16 mínútur Guðmundur Benediktsson á móti Sam. arabísku furstad. 30. ágúst 1994
  • 18 mínútur Grétar Rafn Steinsson á móti Brasilíu 8. mars 2002
  • 20 mínútur Tómas Pálsson á móti Englandi 4. ágúst 1971Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.