Enski boltinn

Meiðslin hrannast upp hjá Arsenal | Þessir eru nú á sjúkralistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sanchez fer hér sárþjáður af velli í gær.
Alexis Sanchez fer hér sárþjáður af velli í gær. Vísir/Getty

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, þarf enn á ný að sætta sig við það að missa lykilmenn ítrekað í meiðsli en staðan hefur sjaldan verið eins slæmt og einmitt núna.

Þrír leikmenn Arsenal meiddust í vonbrigðarjafnteflinu á móti Norwich í gær en Arsenal hefði getað komist upp að hlið toppliðum Manchester City og Leicester City með sigri.

Alexis Sanchez fann fyrir óþægindum aftan í læri eftir sigurinn á Dinamo Zagreb í Meistaradeildinni í vikunni á undan en Arsene Wenger lét hann enga síður spila á móti Norwich.

„Ég hefði getað hvílt hann en hann sagði vera í fínu lagi," sagði Arsene Wenger við BBC en auk Alexis Sanchez þá fór franski miðvörðurinn Laurent Koscielny einnig af velli meiddur á mjöðm.

Þriðji leikmaðurinn til að meiðast var síðan Spánverjinn Santi Cazorla.  „Santi Cazorla kláraði leikinn á öðrum fætinum og er að glíma við vandræði með hnéð sitt. Laurent Koscielny er meiddur á mjöðm og Sanchez er tognaður aftan í læri," sagði Arsene Wenger.

Það er ekki vitað hversu lengi Alexis Sanchez verður frá keppni en það væri mikið áfall fyrir Arsenal-liðið að missa hann í langan tíma.  Sanchez fór af velli í seinni hálfleik en Laurent Koscielny strax í þeim fyrri.

Laurent Koscielny er einn af leikmönnum Arsenal sem meiðast reglulega en liðið mun einnig sakna hans mikið úr miðri vörninni verði hann lengi frá. Santi Cazorla hefði örugglega farið líka af velli en Wenger var búinn að allar þrjár skiptingarnar sínar og því kláraði Cazorla leikinn á öðrum fætinum.

Bætist allir þessir þrír við á sjúkralistann hjá Arsenal þá verða þar alls níu leikmenn úr aðalliðinu.  Francis Coquelin verður frá næstu þrjá mánuðina og þá eru þeir Jack Wilshere, Tomas Rosicky og Mikel Arteta allir meiddir. Framlína liðsins er líka þunnskipuð því bæði Theo Walcott og Danny Welbeck hafa verið lengi frá vegna meiðsla.

Alex Oxlade-Chamberlain og Aaron Ramsey eru aftur á móti komnir af stað á ný eftir sín meiðsli en það boðar ekki gott fyrir þá ef að þeir þurfa að vera undir miklu álagi á næstunni vegna þess hversu þunnskipaður hópurinn er.

„Þetta var slæmt kvöld fyrir okkur í sambandi við þessi meiðsli," sagði Wenger og ekki voru úrslitin heldur til að hrópa húrra fyrir.

Arsene Wenger.Vísir/Getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×