Erlent

Trump dregur ekki í land með „fagnandi múslima“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana í Bandaríkjunum.
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana í Bandaríkjunum. Vísir/EPA

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana í Bandaríkjunum, segir að hann hafi „hundrað prósent“ haft rétt fyrir sér þegar hann sagðist hafa séð þúsundir múslima í New Jersey fagna árásunum á tvíburaturnana í september 2001. Þrátt fyrir það hefur enginn staðfest að þetta hafi átt sér stað og ­lögreglan og embættismenn í New Jersey segja þetta rangt.

Þar að auki hefur Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersy, sem einnig tekur þátt í forvali Repúblikana til forsetakosninga á næsta ára, sagt að þetta hafi ekki gerst.

Trump sagði í dag að hann hefði heyrt frá hundruðum annarra sem hafi orðið vitni að fagnaðarlátunum. Þá hafi myndbönd af fagnaðarlátunum verið birt víða sem sanni mál hans.

Sjá einnig:Donald Trump hæddist að fötlun blaðamanns

Þetta sagði Trump í viðtali við NBC í dag. Þegar spyrillinn spurði hann hvort að það væri ekki líklegt að aðrir sem hafi sagt Trump að þeir hafi einnig orðið vitni að fagnaðarlátunum séu ekki stuðningsmenn hans og vilji vera sammála honum greip Trump fram í. Hann benti á að í New Jersey búa fjölmargir múslímar.

„Af hverju ætti þetta ekki að hafa gerst. Hundruð manns hafa hringt í mig og sent mér tíst, þar sem þau segjast einnig hafa séð þetta og að ég hafi 100 prósent rétt fyrir mér,“ sagði Trump.

Hann sagði einnig að fréttir hafi birst frá öllum hornum heimsins af því að múslímar hefðu fagnað falli tvíburaturnana. Spyrillinn sagði þá að það hefði ekki gerst í New Jersey.

„Víst gerðist það í New Jersey. Ég er mjög minnugur. Ég sá þetta einhversstaðar í sjónvarpinu fyrir mörgum árum og ég gleymi því aldrei.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×