Erlent

Kanslarinn fyrrverandi Helmut Schmidt látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Vestur-Þýskalands.
Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Vestur-Þýskalands.
Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Vestur-Þýskalands, er látinn en hann var 96 ára gamall. Hann dó á heimili sínu í Hamburg, vegna sýkingar sem kom upp í kjölfar veikinda.

Schmidt var kanslari á hátindi kalda stríðsins á árunum 1974 til 1982. Fyrir það var hann varnarmálarðaherra og svo fjármálaráðherra. Hann varð kanslari eftir að Willy Brandt, formaður jafnaðarmannaflokksins, sagði af sér þegar aðstoðarmaður hans reyndist vera útsendari Stasi, leynilögreglu Austur-Þýskalands.

Hann barðist í seinni heimstyrjöldinni og var í skamman tíma fangi Breta í lok styrjaldarinnar árið 1945. Hann hafði þó tekið þátt í ungliðastarfi Nasistaflokksins, en snerist þó seinna gegn flokknum.

Á meðan Schmidt var við völd var hann gagnrýndur fyrir dónaskap og hégóma, en eftir að hann hætti aðkomu að stjórnmálunum í Þýskalandi jukust vinsældir hans til muna. Hann skrifaði margar bækur og var vinsæll gestur í spjallþáttum, þar sem hann krafðist þess að reykja sígarettur. Hvert sem hann fór vildi hann fá öskubakka og hunsaði hann bönn við reykingum.

Samkvæmt BBC neitaði hann alfarið að semja við hryðjuverkahópinn Red Army Faction sem starfaði innan Þýskalands á áttunda áratuginum. Árið 1977 rændu palestínskir hryðjuverkamenn flugvél sem þeir lentu í Mogadishu í Sómalíu og skipaði Schmidt sérsveitarmönnum að gera árás á flugvélina.

Fjöldi embættismanna í Evrópusambandinu og Þýskalandi hafa vottað honum virðingu sína í dag. Schmidt er af mörgum talinn vera faðir evrusamstarfsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×