Lífið

„Ég er óléttur“

Sveinn Arnarsson skrifar
Henrý Steinn er í greiningarferli um kynleiðréttingu og hefur verið það í nokkurn tíma. Nú er hins vegar ferlið stopp þar til annað kemur í ljós.
Henrý Steinn er í greiningarferli um kynleiðréttingu og hefur verið það í nokkurn tíma. Nú er hins vegar ferlið stopp þar til annað kemur í ljós. Fréttablaðið/Auðunn
Henrý Steinn er 18 ára Eyfirðingur sem fæddist stelpa. Henrý kom út úr skápnum sem transmaður fyrir nokkru þegar hann sagði fjölskyldu og vinum frá aðstæðum sínum. Frá því hann opnaði sig um eigin tilveru segist hann hafa losnað úr hlekkjum, hann hætti á þunglyndislyfjum og segist sjaldan hafa verið jafn hamingjusamur.

Hann var byrjaður í kynleiðréttingarferli, þeirri vegferð að láta breyta líkama sínum í karlkyns, þegar hann varð hann óléttur. Núna er hann kominn rúmar 20 vikur á leið og Henrý Steinn lítur framtíðina björtum augum.

Hann segist ungur hafa áttað sig á að eitthvað væri bogið við líf sitt en ekki áttað sig á hvað það væri nákvæmlega sem ekki passaði. „Ég áttaði mig ekki á að þetta væri til. Síðan fór umræðan í samfélaginu að opnast um þessi mál. Ég fór að sjá umræðu í fjölmiðlum og á inter­netinu. Það var á þeim tíma sem ég fann að eitthvað í mér var ekki eins og það átti að vera. Svo fór ég á Google. Það var út frá því sem ég áttaði mig á því að eitthvað þyrfti ég að gera,“ segir Henrý.

Það er um eitt og hálft ár síðan Henrý viðurkenndi fyrir fjölskyldu og vinum að hann væri transmaður. Tíminn sem leið frá því að Henrý áttaði sig sjálfur á því að hann væri trans og þar til hann opnaði sig fyrir fjölskyldu sinni var erfiður. Hann reyndi hvað hann gat til að passa inn í ákveðin mót sem samfélagið hefur sett um ímynd stúlkna og hvernig þær eigi að vera og líta út.

„Á þessum tveimur árum flakkaði ég á milli þess að vera alveg hinum megin á skalanum og reyndi að passa inn eins og ég gat. Fór alveg í steríótýpuna, eða reyndi það. Ég hef aldrei verið mikið fyrir sítt hár og þaðan af síður verið hrifinn af kjólum en ég reyndi. Svo fór ég að átta mig á því að þetta væri ekki ég og fikraði mig yfir í hina áttina. Síðan var það í sögutíma í menntaskóla sem mér varð ljóst að þetta gengi ekki lengur. Ég þurfti að gera eitthvað og þá fór ég að segja að ég væri kynsegin.“

Hugmyndir um kyn á villigötum

Hann segir allt of marga rugla saman kyni fólks og kynhneigð. Um tvö aðskilin mál sé að ræða. „Þarna er um að ræða tvo skala sem eiga í raun ekkert sameiginlegt. Ég er transmaður og er í sambúð með karlmanni,“ segir Henrý.

„Samfélagið virðist oft líta á kyn svart-hvítum augum – en það er ekkert svart og hvítt. Þarna er grár skali á milli. Við sem hrærumst í þessu viljum meina að allir séu þarna einhvers staðar á skalanum og fólk geti líka rokkað fram og til baka á lífsleiðinni. Maður er ekki fastmótaður hvað þetta varðar.

Það sem er erfitt er að það er ekki hægt að tala um sig í hvorugkyni. Svíar hafa tekið það upp og það er komið fornafn á Íslandi sem er „hán“ og er kynlaust. Þetta er fornafn sem margir sem eru kynsegin nota um sig en samt alls ekki allir. En lýsingarorðin í íslensku eru þannig að það er erfitt að nota þetta.“



Mamma mesti stuðningurinn

Henrý segir mömmu sína hafa verið hans stoð og stytta í gegnum allt saman. Faðir hans sé ekki kominn eins langt í því að meðtaka þetta, sem Henrý segir skiljanlegt. Hann vilji gefi pabba sínum þann tíma sem hann þarf. 

„Það tekur á en ég vissi alveg að mamma væri ekki að fara að vísa mér á dyr eða eitthvað. Mamma er besti vinur minn. Eina spurningin sem hún hafði var hvort ég þyrfti að vera með konu en þegar ég útskýrði það að þetta tengdist ekki kynhneigð, þá var það útrætt. Ég hef fengið mikinn styrk frá mömmu og svo frá vinum. En pabbi er að taka aðeins lengri tíma í þetta. Hann er eldri, úr minna bæjarfélagi og svona. Hann umgengst mig ekki jafn mikið þannig að hann tekur skiljanlega meiri tíma í þetta. Gæti alveg tekið jafn mikinn tíma og það tók mig að átta mig á þessu. Það er lítið sem maður getur gert í því en ég er farinn að heyra hann leiðrétta sig öðru hvoru þannig að það er jákvætt. Þannig að þetta mjakast.“

Henrý segir það skipta sig miklu máli að faðir hans samþykki þessa breytingu. „Það væri frábært og það á eftir að gerast einhvern tímann.“

Henrý segir auðskilið að það taki fólk tíma að átta sig á breyttri stöðu. Það var erfitt fyrir hann persónulega að losna úr þessum hlekkjum eins og hann orðar það, en á sama tíma er hann að umbreyta hugmynd annarra um sig. „Þetta mun auðvitað taka tíma því ég er að snúa þessu algjörlega á hvolf fyrir fólkið í kringum mig.“

Þung skref

Þetta voru þung skref að stíga en að hans mati hefur hann verið heppinn miðað við aðra sem hafa gengið í gegnum það sama. „Ég er heppinn því það er lítið um trú í minni fjölskyldu og ég þurfti ekki að takast á við þannig pakka. Ég veit alveg um einstaklinga sem hafa fengið þvert nei þar sem Guð skapaði einstaklinginn svona og svona og því eigi ekki að breyta. Þannig að ég er þakklátur fyrir að þurfa ekki að takast á við það. Svo á ég fjögur eldri systkini og það hefur líklega verið jafn mikið mál fyrir þau og foreldra mína.“

Að mati Henrýs er auðveldast að láta yngstu börnin vita af þessari breytingu því þau taka þessu vel. Hins vegar hafi margar spurningar vaknað hjá fjölskyldumeðlimum á unglingsaldri. Að mati Henrýs er staðalímyndum um kyn, sem hafa prentast inn í hug þeirra á skólagöngunni, um að kenna en auðvelt sé að útskýra þetta fyrir þeim. „Þetta á ekki að vera neitt feimnismál.“

„Ég fór að gleyma að taka lyfin og allt í einu skipti það engu máli. Eftir að ég kom út þá losnaði ég úr hlekkjum, varð ég sjálfur aftur.“Fréttablaðið/Auðunn
Mikið léttari andlega

Henrý segir að andleg líðan hans hafi ekki verið góð í síðustu bekkjum grunnskóla, eða þar til hann kom út sem kynsegin.

„Ég byrjaði að finna fyrir þunglyndi í sjöunda bekk og fór á lyf. Eftir að ég kom út sem kynsegin fann ég ekki þörf fyrir að að taka þessi lyf. Líkaminn var alltaf að hækka í þoli gagnvart lyfjum og því þurfti alltaf að hækka skammtinn.“ Hann segir vendipunktinn hafa verið þegar hann fann sig kynsegin.

„Ég fór að gleyma að taka lyfin og allt í einu skipti það engu máli. Eftir að ég kom út þá losnaði ég úr hlekkjum, varð ég sjálfur aftur. Það gladdi mig að annað fólk tók líka eftir því að ég var orðinn hamingjusamari. Í dag þarf ég engin lyf.“

Henrý segir mikilvægt að allir finni sig og geti lifað því lífi sem þeir kjósa. 

„Ég er óléttur“

Henrý Steinn er í greiningarferli um kynleiðréttingu og hefur verið það í nokkurn tíma. Nú er hins vegar ferlið stopp þar til annað kemur í ljós.

„Ferlið hjá mér er núna í pásu í bili vegna þess að ég er óléttur,“ segir Henrý og skellir upp úr. „Það gengur ekki að fara á hormón núna og flækja hlutina fyrir öllum. Það er því tekin pása í ferlinu. Ég mun hitta Óttar Guðmundsson geðlækni, sem sér um ferlið, í janúar og við skoðum hvernig við höldum áfram eftir að meðgöngu lýkur,“ segir Henrý.

„Ég er búinn með helming meðgöngunnar og á von á stelpu,“ segir Henrý en staldrar við þegar hann segist eiga vona á stelpu. Henrý hefur vafalaust aðra sýn á líffræðilegt kyn en margir. „Ég nota oftast orðið „krakkinn“ eða „barnið“ en nota orðið stelpa ef aðrir í kringum mig nota það orð.“

Meðgangan gengur nokkuð vel og ljósmæður á Akureyri hafa sýnt mikinn skilning. Þetta er auðvitað einkennileg staða, að vera óléttur karlmaður. „Mér finnst þetta lítið öðruvísi. Aðalströgglið er að þurfa að útskýra þetta fyrir öllum sem koma að meðgöngunni. Ég er ekki skráður Henrý Steinn í neinum gögnum heldur með allt öðru nafni. Þannig að ég þarf að útskýra þetta dálítið oft en það er bara allt í lagi.“

Síðasti séns

Henrý segir það gjöf að geta þekkt tilfinninguna að ganga með barn. Fylgja uppvextinum áfram með brjóstagjöf og öðru. Undirbúningur er hafinn og móðir hans er búin að kaupa föt á barnið í útlöndum og þar af nokkuð af bleikum fötum.

„Ég er mjög ánægður með að vera í pásu í kynleiðréttingarferlinu á meðan ég er óléttur, það á eftir að borga sig,“ segir Henrý, og horfir á meðgönguna sem síðasta séns. „Því ef ég fer alla leið í kynleiðréttingunni þá verður auðvitað mun erfiðara að eignast börn. Alla langar til að eiga blóðskylt afkvæmi.

Það eru heldur ekki allir sem geta sagt að pabbi sinn hafi haft sig á brjósti,“ segir Henrý og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×