Sport

Björgvin Karl og Katrín Tanja leiða á Íslandsmótinu í Crossfit fyrir lokadaginn | Myndir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Katrín Tanja og Ragnheiður Sara i baráttunni í dag.
Katrín Tanja og Ragnheiður Sara i baráttunni í dag. vísir/daníel
Mikil spenna er fyrir lokadaginn á Íslandsmótinu í Crossfit, Reebok Throwdown 2015, en fyrstu tveir dagarnir hafa verið fjörugir. Björgvin Karl Guðmundsson leiðir karlamegin, en hjá konunum er heimsmeistarinn Katrín Tanja Davíðsdóttir.

Daníel Rúnarsson, ljósmyndari, skellti sér í Digranesið og tók þessar myndir sem má sjá hér að neðan.

Björgvin Karl Guðmundsson, úr Crossfit Hengli, er efstur með 472 stig. Hann er með tólf stiga forskot á Jakob Daníel Magnússon, Crossfit Hafnarfirði, sem er í öðru sætinu með 460 stig. Í þriðja sætinu er  Sigurður Þrastarson með 413 stig.

Björgvin Karl sló rækilega í gegn á síðustu heimsmeistaraleikunum, en þar lenti hann meðal annars í þriðja sæti. Hann hefur góða forystu fyrir síðasta daginn, en fimm greinar eru á dagskrá á morgun.

Í kvennaflokki er heimsmeistarinn Katrín Tanja Davíðsdóttir, Reebok Crossfit Reykjavík, efst með 522 stig. Hún er með forystu á Íslandsmeistarann frá því í fyrra, Þuríði Erlu Helgadóttur úr Crossfit Sport, sem er með 504 stig. Í þriðja sæti kemur svo Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir með 494 stig, en hún lenti í þriðja sæti á síðustu heimsleikum.

Keppt er í opnum flokkum karla og kvenna en einnig eru aldursskiptir flokkar 35 ára og eldri. Öll nánari úrslit má finna hér.

Vísir/Daníel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×