Körfubolti

Kaninn í ÍR fékk blóðtappa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jonathan Mitchell.
Jonathan Mitchell. vísir
Jonathan Mitchell, Bandaríkjamaðurinn í liði ÍR í Dominos-deild karla í körfubolta, fékk blóðtappa í kálfa í leik liðsins gegn FSu á sunnudagskvöldið.

Mitchel, sem skoraði 23 stig og tók þrettán fráköst á þeim 29 mínútum sem hann spilaði gegn FSu, þurfti að fara af velli þegar sex mínútur voru eftir.

Fyrst var haldið að hann væri meiddur á kálfa en við nánari skoðun kom í ljós að Mitchell fékk blóðtappa.

„Þetta var alls ekki sú greining sem við áttum von á en til allrar hamingju greindist þetta mjög snemma og flokkað sem minni háttar tilfelli,“ segir Bjarni Magnússon, þjálfari ÍR, við karfan.is.

Bjarni vonast til að Mitchell geti byrjað að æfa eftir viku, en hann fer í blóðprufu á morgun.

Það er ljóst að Mitchell missir af leik ÍR og Grindavíkur á fimmtudaginn, en þar mætast tvö Kanalaus lið.

Vonandi fyrir ÍR verður Mitchell kominn til baka fyrir leik liðsins gegn Stjörnunni í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×