Íslenski boltinn

Gary Martin: Væri byrjunarliðsmaður í öllum hinum liðum deildarinnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Framtíð Gary Martin hjá KR er í óvissu.
Framtíð Gary Martin hjá KR er í óvissu.
Gary Martin, leikmaður KR, getur ekki sagt fyrir um hvort að hann muni vera leikmaður KR á næsta tímabili en hann er ósáttur með hversu fáa leiki hann hefur byrjað á tímabilinu. Hann segist þurfa að vera aðalmaðurinn í liðinu verði hann áfram hjá KR.

„Í augnablikinu er ég leikmaður KR en í næstu viku gæti ég verið seldur, ég veit það ekki,“ sagði Martin eftir sigur KR á Víking þar sem hann átti stórleik, skoraði tvo og lagði upp eitt mark. Hann segist ekki vilja fara frá KR en það velti þó á því hvaða hlutverk sé í boði fyrir hann á næsta tímabili.

„Ég þarf að vera aðalmaðurinn á ný eins ég var þegar Rúnar Kristinsson var að þjálfa KR. Ég hef átt þrjú frábær ár hérna og auðvitað vill maður ekki fara frá stærsta félagi Íslands. Við sjáum hvað verður, hvaða leikmenn koma og fara og hvort það verði gerð einhver tilboð í mig.“

Martin er óánægður með að hafa einungis fengið að byrja í átta leikjum og segir það ljóst að hann kæmist í byrjunarliðið í öllum hinum liðunum í deildinni.

„Ég er vonsvikinn með að hafa bara byrjað átta leiki í sumar. Ég myndi byrja meira en átta leiki í öllum liðum deildarinnar, meira að segja FH. Ég er vonsvikinn með að hafa fengið svona fá tækifæri í byrjunarliðinu en þetta mótlæti hefur styrkt mig og gert mig að betri leikmanni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×