Erlent

Efast um að loftárásir Rússa í Sýrlandi beinist að ISIS

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Loftárásir Rússa á Sýrland hófust í dag.
Loftárásir Rússa á Sýrland hófust í dag. Vísir/Getty
Vafi leikur á því hvort loftárásir Rússa í Sýrlandi hafi verið gerðar á bækistöðvar ISIS líkt og sagði í tilkynningu frá rússneska Varnarmálaráðuneytinu fyrr í dag. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir það vera mikið áhyggjuefni séu Rússar að gera árásir á aðra hópa en ISIS í Sýrlandi.

Í tilkynningu frá Varnarmálaráðuneyti Rússland segir að flugsveitir rússneska hersins hafi ráðist á átta skotmörk í eigu ISIS, allt frá bækistöðvum til vopnageymslna. Með fréttatilkynningunni fylgdi myndband þar sem sjá má flugsveitirnar varpa sprengjum á skotmörk í Sýrlandi.

Genevieve Casagrande hjá Institute for the Study of War (ISW) segir að samkvæmt upplýsingum sem stofnunin hefur safnað saman hafi loftárásir Rússa ekki verið gerðar á bækistöðvar ISIS. Þær hafi fyrst og fremst verið gerðar á uppreisnarmenn í Sýrlandi, þar á meðal Jabhat Al-Nusra sem tengist hryðjuverkasamtökunum Al-Queda og hópum sem fengið hafi hernaðaraðstoð frá Vesturlöndunum. Í umfjöllum ISW segir að næstu bækistöðvar ISIS hafi verið í 55 kílómetra fjarlægð frá loftárásum Rússa.

Bandarísk yfirvöld hafa dregið í efa að loftárásunum hafi verið beint gegn ISIS en varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Ash Carter, lét hafa eftir sér að það liti út fyrir að loftárásir Rússa í Sýrlandi hafi ekki verið gerðar á skotmörk tengd ISIS.

John Kerry sagði á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag að Bandaríkin styddu aðgerðir sem ætlaðar væru til að draga úr krafti ISIS en að það væri mikið áhyggjuefni ef loftárásir Rússa beindust gegn öðrum hópum en ISIS




Fleiri fréttir

Sjá meira


×