Körfubolti

Martin: Ætla að taka sex Evrópumót í viðbót áður en ég hætti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson skorar í kvöld.
Martin Hermannsson skorar í kvöld. Vísir/Valli
Martin Hermannsson stóð sig frábærlega með íslenska körfuboltalandsliðnu á Evrópumótinu í Berlín en hann var með 6 stig og 3 stoðsendingar á móti Tyrkjum í kvöld.

„Stuðningurinn og upplifunin að fá að vera inn á vellinum og spila fyrir framan þetta fólk og á móti svona sterku liði. Þetta var alveg geggjað," sagði Martin eftir leikinn.

Tyrkir voru oft við það að ætla að fara að stinga íslenska liðið af en strákarnir komu alltaf til baka.

„Ég á eiginlega ekki orð yfir okkur. Ég hef aldrei séð svona góða frammistöðu hjá íslensku körfuboltaliði á ævinni. Maður ímyndar sér að ef við hefðum verið í einhverjum öðrum riðli með liðum sem við hefðum getað unnið með svona spilamennsku. Þá hefðum við kannski verið komnir áfram í sextán liða úrslit. Það hefði verið rosalegt," sagði Martin.

„Við höfum bætt okkur rosalega. Að sjá muninn á okkur frá því að ég byrjaði í landsliðinu fyrir þremur árum. Skilningurinn og hvað menn eru kokhraustir og tilbúnir að spila á móti þessum risaþjóðum og standa í þeim. Það er magnað," sagði Martin.

Hann dansaði oft í kringum tveggja metra mennina í mótinu og skoraði margar smekklegar körfur.

„Ég er búinn að vinna vel í þessum "flóter" og það er eins gott að nýta hann," sagði Martin sem skoraði þrjár flottar körfur á móti Tyrkjum.

Martin sér fram á bjarta framtíð hjá íslenska körfuboltalandsliðinu.

„Ég ætla að taka kannski sex Evrópumót í viðbót áður en ég hætti," sagði Martin léttur en verður hann þá ekki að sannfæra "gömlu" karlanna um að halda áfram.

„Við skiptum um hné hjá Jóni, Logi er "forever young" og við erum því í góðum málum. Ég ætla að byrja á því að taka áratug í viðbót og svo sjáum við til," sagði Martin hress að lokum.


Tengdar fréttir

Logi: Ég tróð mér inná í lokin

Logi Gunnarsson átti mjög flottan leik á móti Tyrkjum í kvöld en hann kom með 16 stig af bekknum og hitti úr 4 af 5 þriggja stiga skotum sínum.

Jón Arnór: Eftir svona mót vill maður ekkert hætta

Jón Arnór Stefánsson stóð fyrir sínu þegar íslenska körfuboltalandsliðið tapaði með níu stiga mun, 111-102, fyrir Tyrklandi eftir framlengdan leik á Evrópumótinu í Berlín í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×