Körfubolti

Jakob og Logi allt í öllu í sókninni þegar Ísland vann Holland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Vísir/Andri Marinó
Ísland vann tveggja stiga sigur á Hollandi, 67-65, á æfingamótinu í Eistlandi í dag en það var allt annað að sjá til íslenska liðsins heldur en í tuttugu stiga tapinu á móti heimamönnum í gær.

Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur í íslenska liðinu með 20 stig en Logi Gunnarsson skoraði átta af sextán stigum sínum í lokaleikhlutanum.  Logi kom inn í byrjunarliðið og minnti vel á sig í seinni hálfleiknum.

Jakob og Logi skoruðu saman sjö þriggja stiga körfur í leiknum og allt íslenska liðið var með tólf þrista í leiknum og skoraði þrjár fleiri körfur utan þriggja stiga línunnar en innan hennar.

Pavel Ermolinskij var með 8 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar, Hlynur Bæringsson skoraði 7 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson var með 6 stig og 4 stoðsendingar.

Íslenska liðið tapaði fráköstunum illa, tóku sextán færri fráköst (31-47), auk þess að taka 39 þriggja stiga skot á móti aðeins 26 tveggja stiga skotum.

Íslenska landsliðið lék í leiknum án tveggja af sínum sterkustu leikmönnum en Jón Arnór Stefánsson er meiddur á hné og Haukur Helgi Pálsson fékk leyfi til að fara í brúðkaup föður síns.

Íslenska vann fyrsta leikhlutann 15-9 og var átta stigum yfir í hálfleik, 29-21. Íslenska liðið byrjaði síðan frábærlega í þriðja leikhlutanum og komst mest fimmtán stigum yfir, 45-30.

Hollendingar enduðu hinsvegar þriðja leikhlutann af krafti og munurinn var aðeins þrjú stig, 47-44, fyrir lokaleikhluta eftir að hollenska liðið vann síðustu fjórar mínútur leikhlutans 14-2.

Hollendingar náðu að jafna metin í upphafi lokaleikhlutans en komust ekki yfir. Logi Gunnarsson sá til þess með því að skora 8 stig á fyrstu fimm mínútum í fjórða leikhlutanum.

Fimm stig í röð á tæpri mínútu frá fyrirliðanum Hlyni Bæringssyni komu íslenska liðinu aftur níu stigum yfir, 63-54. Íslenska liðið var síðan sterkara á lokamínútunum en það munaði þó bara tveimur stigum í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×