Viðskipti erlent

Fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu talaði yfir hausamótunum á Tsipras

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guy Verhofstadt, forsætisráðherra Belgíu.
Guy Verhofstadt, forsætisráðherra Belgíu. vísir/getty
Guy Verhofstadt, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, hélt innblásna ræðu á Evrópuþinginu í dag þar sem hann ávarpaði Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, með nokkrum vel völdum orðum.

Mikil pressa er nú á Tsipras og ríkisstjórn hans að koma með nýjar tillögur að lausn á skuldavanda gríska ríkisins en Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur gefið Grikkjum frest fram á föstudagsmorgun til að koma með tillögur.

Gríska þjóðin lagt mikið á sig öfugt við gríska stjórnmálamenn

Verhofstadt sagðist í dag vera reiður út í Tsipras fyrir að hafa ekki enn komið með neitt nýtt að borðinu. Hann sagði það rétt sem Tsipras hafði sagt að gríska þjóðin hefði lagt mikið á sig vegna efnahagsástandsins en Verhofstadt sagði gríska stjórnmálamenn ekki hafa lagt jafnmikið á sig.

„Ég er reiður út í þig, herra Tsipras, því þú talar um úrbætur en við sjáum aldrei neinar tillögur frá þér um úrbætur. Ég er líka reiður vegna þess að við höfum núna í fimm ár flotið sofandi að feigðarósi, að því að Grikkland yfirgefi evrusvæðið og Evrópusambandið. Yfir því gleðjast öfga hægri öflin hér í salnum,“ sagði Verhofstadt.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, á Evrópuþinginu í dag.vísir/getty
Kom með fimm tillögur fyrir Tsipras

Verhofstadt sagði að það væri aðeins ein leið til að koma í veg fyrir útgöngu Grikklands og það væri með ítarlegum tillögum að úrbótum í Grikklandi. Verhofstadt sagði að það þyrfti að gera fimm hluti í landinu til að koma því á réttan kjöl.

„Það þarf að stöðva klíkuskapinn og setja lög vegna hans sem þú hefur ekki gert. [...] Þú þarft að skera niður í velferðarkerfinu. [...] Þú þarft að einkavæða ríkisbankana, þú þarft að opna markaðinn og það þarf að binda enda á forréttindi ákveðinna stofnanna í samfélaginu, eins og forréttindi hersins og kirkjunnar.“

Alvöru leiðtogi eða falskur spámaður?

Ítrekað var klappað fyrir Verhofstadt á meðan hann hélt ræðu sína sem hefur vakið mikla athygli í dag. Hann setti hana á Facebook-síðu sína og hefur henni nú verið deilt yfir 37.000 sinnum.

Verhofstadt endaði ræðu sína á þessum orðum:

„Hvernig viltu að þín verði minnst? Sem mistaka sem gerð voru í kosningum og gerði þjóð sína fátækari? Eða viltu þín verði minnst sem alvöru byltingamanns sem gerði úrbætur? [...] Ég veit hvað þjóðin þín vill. 80 prósent landsmanna vilja vera áfram í Evrópusambandinu svo þú hefur nú val um að vera alvöru leiðtogi en ekki falskur spámaður.“

Horfa má á ræðu Verhofstadt í heild sinni hér að neðan.

I got angry this morning at Mr Tsipras, because we need to see concrete proposals coming from him. We can only avoid a #Grexit if he takes his responsibility. Watch my speech again here

Posted by Guy Verhofstadt on Wednesday, 8 July 2015

Tengdar fréttir

Juncker vill tillögur á föstudagsmorgun

Forsætisráðherrar ríkja Evrusvæðisins funduðu um neyðaraðstoð í gær. Annar fundur verður á sunnudag. Lokafrestur Grikkja til að koma með ítarlegar tillögur er á föstudag. Nýr fjármálaráðherra Grikkja mætti tómhentur á fund í Brussel.

Kaldur veruleiki Grikkja

Engin önnur þjóð í Evrópusambandinu hefur verið leikin eins grátt af efnahagskreppunni og Grikkland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×