Innlent

Það þarf að stofna félag karla sem gráta

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Fjórir til sex ungir menn taka líf sitt að jafnaði á hverju ári hér á landi. Geðhjálp, Hjálparsími Rauða krossins og tólf manna hlaupahópur standa sameiginlega að átaks- og forvarnarverkefnisins Útmeða. Með því slagorði eru ungir menn hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð.

Formaður Geðhjálpar Hrannar Jónsson þurfti sjálfur að læra að tala um tilfinningar sínar og segir þurfa tilfinningabyltingu meðal karlmanna.

„Ég held að það þurfi tilfinningabyltingu á meðal karlmanna. Við þurfum að stofna félag karla sem gráta, Við þurfum að læra að grenja. Ég þekki þetta sjálfur. Að hafa verið karlmaður sem var allur inni í sér og geta ekki komið hlutunum frá mér og fór í gegnum mína byltingu. Það þarf að verða félagsleg bylting.“

42% aukning

Á degi hverjum snýst rúmlega eitt símtal til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 um sjálfsvíg, eigið eða annarra. Símtöl til hjálparsímans um sjálfsvíg voru 42% fleiri fyrrihluta ársins 2015 en fyrrihluta ársins 2014. Hjálmar Karlsson er verkefnastjóri Hjálparsímans.

„Við höfum fundið fyrir því núna, það er 42% aukning á sjálfsvígssímtölum þessu ári miðað við árið í fyrra. Það þarf svo sem ekkert endilega að þyða að fleiri séu í sjálfsvígshug. það getur þýtt að fleiri séu að leita sér hjálpar sem sem er náttúrulega frábært og  hjálpar til við að lyfta þögguninni. Það er alltaf fyrsta rökrétta skrefið að hafa samband við okkur,“segir Hjálmar. 

Hann minnir á að fullum trúnaði er heitið og það er ókeypis að hringja. Þá sé hægt að nýta sér spjallið og ræða við sjálfboðaliða í gegnum tölvu. 

 
„Það er fullum trúnaði heitið og algjör nafnleynd, hann er opinn allan sólarhringinn og er alveg ókeypis, öll símfyrirtækin fella niður gjöld sín í hjálparsímann. Samtölin fara fram á jafnmargan hát tog þau eru ólík. Sjálfboðaliðarnir okkar eru sérþjálfaðir í því að taka á móti öllum símtölum hvernig sem þau eru, hvort sem þau eru mjög alvarleg eða eitthvað annað. Þá geta þeir veitt þennan sálræna stuðning og sálræn skyndihjálp sem þarf til ásamt því að veita upplýsingar um þau úrræði sem til eru í samfélaginu hverju sinni.“
 

12 manna hlaupahópur ætlar að hlaupa hringinn í kringum landið til að safna fé til átaksins.  Byrjað verður í Reykjavík við húsnæði Rauða Krossins, þann 30.júní og komið í mark 5.júlí á sama stað. Hringurinn er 1400 kílómetrar.



Á vettvangi sjálfsvígs 
Haldin var hlaupaæfing Rauði krossins og Geðhjálpar í dag. Hlaupaæfingin er liður í undirbúningi hlauparanna undir hringhlaupið í kringum landið og markmið hópsins er safna áheitum til að efna til vitundarvakningar um vandann. Hópurinn er til í slaginn.

Ágúst Guðmundsson er slökkviliðsmaður og málefnið stendur honum nærri enda þarf hann í störfum sínum stundum að vinna á vettvangi sjálfsvígs.

„Við vorum búin að sjá tölu sem kom okkur mikið á óvart áður en við fórum af stað í þetta verkefni, svo tengist þetta mínu starfi töluvert, ég hef þurft að glíma við ýmislegt á mínum árum hjá Slökkviliðinu svo þetta stendur mér nærri.“
 
Hægt er að styrkja hlaupið um 1.500 kr. með því að hringja í símanúmerið 904 1500
eða eða leggja inn á söfnunarreikning Geðhjálpar, 546 – 14 – 411114, kt. 531180 – 0469
Númerið 1717 er gjaldfrjálst úr öllum símum og ekki kemur fram á símreikningi að hringt hafi verið í númerið.
-Einnig er hægt að hringja í 1717 án inneignar í gsm-símum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×