Erlent

Hjartnæm mynd í dreifingu á samfélagsmiðlum

Samúel Karl Ólason skrifar
"Þetta snerti við mér og var mjög fallegt svo ég tók mynd.“
"Þetta snerti við mér og var mjög fallegt svo ég tók mynd.“ Mynd/Na Son Nguyen
Mynd af ungum dreng faðma og hughreysta systur sína hefur farið víða á samfélagsmiðlum síðustu daga. Myndin er sögð hafa verið tekin í Nepal og vera af tveggja ára stúlku og fjögurra ára bróðir hennar. Í raun var myndin tekin í Norður-Víetnam árið 2007.

Samkvæmt BBC hefur fólk reynt að hafa upp á börnunum og jafnvel reynt að setja af stað söfnun fyrir þau.

Raunverulegur ljósmyndari myndarinnar er víetnamski ljósmyndarinn Na Son Nguyen. Hann segist hafa tekið myndina í smáu þorpi í Víetnam.

„Ég var á ferð í gegnum þorpið en stoppaði þar sem tvö börn voru að leik fyrir framan hús þeirra á meðan foreldrar þeirra voru við vinnu á ökrunum. Litla stúlkan, sem trúlega var um tveggja ára, fór að gráta í návist ókunnugs manns. Þá faðmaði drengurinn sem var kannski þriggja ára systir sína til að hugga hana,“ segir Na Son Nguyen.

„Þetta snerti við mér og var mjög fallegt svo ég tók mynd.“

Myndina birti hann á bloggsíðu sinni og þremur árum seinna var hún komin í dreifingu á Facebook í Víetnam. Þá var myndin sögð af yfirgefnum munaðarleysingjum. Þar að auki hefur myndinni einnig verið dreift í gegnum árin þar sem börnin hafa verið sögð vera munaðarleysingjar frá Búrma eða fórnarlömb borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi.

Na son hefur reynt að koma í veg fyrir þennan misskilning með litlum sem engum árangri.

„Þetta er líklega sú mynd mín sem fengið hefur mesta dreifingu, en því miður hefur það verið í röngu samhengi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×