Körfubolti

Gunnhildur: Alltaf best að spila heima

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnhildur átti frábært tímabil með Snæfelli.
Gunnhildur átti frábært tímabil með Snæfelli. vísir/vilhelm
„Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir það sem maður leggur á sig,“ sagði Gunnhildur Gunnarsdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Snæfells, í samtali við Vísi eftir lokahóf KKÍ sem fór fram í Laugardalnum í dag.

Gunnhildur var valin besti varnarmaður Domino's deildar kvenna auk þess sem hún var í liði ársins.

Sjá einnig: Hildur og Pavel best í Domino's deildunum.

„Ég hef þroskast mikið sem varnarmaður og legg mikið upp úr því að spila góða vörn. Með góðri vörn kemur góð sókn og þú öðlast sjálftraust með því að standa þig vel í vörninni,“ sagði Gunnhildur sem sneri aftur í Hólminn fyrir tímabilið eftir nokkur ár í Haukum. Hún segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun.

„Ég sé alls ekki eftir því. Ég bý fyrir vestan og það er gott að spila fyrir uppeldisfélagið, þótt ég hafi átt góð ár í Haukum. Það er alltaf best að spila heima,“ sagði Gunnhildur ennfremur sem gerir ráð fyrir að vera áfram í Hólminum næstu árin.

Snæfell er Íslandsmeistari síðustu tveggja ára en mun væntanlega mæta með nokkuð breytt lið til leiks á næsta tímabili. Hildur Sigurðardóttir, leikmaður ársins og fyrirliði Snæfells, hefur lagt skóna á hilluna og þá ætlar Kristen McCarthy að reyna fyrir sér í sterkari deild.

„Hópurinn mun líta öðruvísi út en vonandi fáum við einhverjar duglegar stelpur heim. Svo erum við með unga og efnilega leikmenn. Þessi hópur þarf að stíga eitt skref áfram og bæta sig,“ sagði Gunnhildur og bætti því við að hefðin sem hefur skapast í Snæfelli undanfarin ár sé mikilvæg.

„Það er búið að sýna sig að karfan heima er á uppsiglingu. En við erum ekkert með endalaust úrval af leikmönnum. Árgangarnir í skólunum eru litlir og það er mjög mikilvægt að vera með góða þjálfara í yngri flokkunum svo leikmenn skili sér upp í meistaraflokkinn.

„Það er gott fyrir yngri leikmenn að sjá að það er hægt að gera góða hluti,“ sagði Gunnhildur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×