Innlent

Grunaður um stórfellda líkamsárás á barnsmóður sína: „Núna stoppar mig ekkert“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa ráðist á barnsmóður sína í bílnum hennar fyrir rúmri viku síðan.
Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa ráðist á barnsmóður sína í bílnum hennar fyrir rúmri viku síðan. vísir/getty
Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. apríl síðastliðnum þar sem kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að karlmaður skyldi sæta 6 mánaða nálgunarbanni var hafnað.

Var dómurinn ómerktur vegna þess að ekki þótti ljóst af bókunum við fyrirtöku málsins í héraðsdómi hvort að konan sem fór fram á nálgunarbannið hafi dregið kröfu sína um það til baka eða ekki.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að konan og maðurinn eigi tvö börn saman og hafi verið í sambúð þar til í febrúar í fyrra. Í dómnum eru rakin tilfelli þar sem maðurinn er grunaður um að hafa lagt hendur á konuna og haft í hótunum við hana.

Er hann meðal annars grunaður um að hafa ráðist á konuna þann 22. apríl síðastliðinn. Lögreglan var þá kölluð að heimili konunnar en maðurinn á að hafa ráðist á hana þar sem hún var inni í bílnum sínum.

Kastaði konunni til og frá í bílnum

Sagði konan við lögreglu að hún hefði verið inn í bílnum þegar maðurinn kom þangað inn. Á hann að hafa kastað konunni til og frá í bílnum með þeim afleiðingum að „hún hefði skollið með höfuðið í harða hluti í bifreiðinni.“

Þá hafi maðurinn jafnframt haldið um hálsinn á henni svo hún átti erfitt með andardrátt og kýlt hana í höfuðið. Konan sýndi lögreglunni skilaboð sem hún fékk frá manninum á Facebook kvöldið áður þar sem hann segir við hana „nú stoppar mig ekkert.“

Tvö vitni urðu að árás mannsins á konuna. Sagði annað þeirra við lögreglu að það hefði séð að maðurinn var búinn að spenna konuna á milli framsætanna í bílnum. Hann hafi þrýst konunni í gólfið og var að berja hana. Vitnið stöðvaði manninn og tók hann út úr bílnum sem flúði af vettvangi.

Rifbeinsbrot og líflátshótanir

Konan leitaði á slysadeild í kjölfar árásarinnar en hún rifbeinsbrotnaði og hlaut yfirborðsáverka á hálsi og höfði.

Í dómi héraðsdóms eru jafnframt rakin tvö önnur tilvik á seinustu þremur vikum þar sem lögregla hafi verið kölluð til vegna ofbeldis af hálfu mannsins í garð konunnar. Þá á hann jafnframt að hafa haft í hótunum við hana, meðal annars líflátshótunum.

Héraðsdómur féllst ekki á kröfu um nálgunarbann vegna þess að konan féll frá kröfunni. Hæstiréttur telur það hins vegar vafa undirorpið og hefur því sent málið aftur heim í hérað til efnislegrar meðferðar.

Dóma Hæstaréttar og héraðsdóms má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×