Innlent

Tíminn að renna út: Tilkynna þarf um vott dómnefndar í dag

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hera segir lausnina munu liggja fyrir í lok dags.
Hera segir lausnina munu liggja fyrir í lok dags. Vísir/Stefán/Andri
Áður en dagurinn er úti mun liggja fyrir lausn á þeim vanda sem skapaðist vegna verkfalls lögmanna hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og þátttöku Íslendinga í Eurovision. Þetta segir Hera Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Eurovision hjá RÚV.

Sjá einnig: Ætla að gera allt til að bjarga Eurovision

Málið varðar verkfall félagsmanna í Bandalagi háskólamanna sem hófst fyrir þremur vikum. Verkfallið nær til lögbókanda hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en um áraraðir hefur það verið hlutverk þess aðila að fylgjast með og staðfesta niðurstöður íslensku dómnefndarinnar í Eurovision.

Tilkynna þarf skipuleggjendum Eurovision í ár hver verður vottur dómnefndar áður en mánuðurinn er á enda en eins og glöggir lesendur vita er 1. maí á morgun. Því er ekki mikill tími til stefnu.

Sjá einnig: Þarf Ísland að draga sig úr Eurovision?

Hera segist ekki geta gefið upp hvernig málið verður leyst fyrr en í lok dags. „Við erum að ganga frá þessu,“ sagði hún í samtali við Vísi. Hún segir að það hafi ekki verið mikið vesen að leysa málið. „Við vorum í raun komin með lausn á þessu stuttu eftir havaríið þegar allt fór í háaloft. En svo vorum við að vonast til að verkfallið myndi leysast áður en við þyrftum að gera eitthvað í því.“

Til stendur að hópurinn frá Íslandi með Maríu Ólafsdóttur í broddi fylkingar haldi út 13. maí næstkomandi en María stígur á svið í seinni undankeppninni sem verður fimmtudagskvöldið 21. maí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×