Lífið

Hafþór enn efstur í sínum riðli

Samúel Karl Ólason skrifar
Andri Reyr að leggja á ráðin með okkar manni.
Andri Reyr að leggja á ráðin með okkar manni.

Hafþór Júlíus Björnsson er efstur í sínum riðli með 26 stig en næsti maður á eftir honum er með 21 stig. Hafþór keppti í tveimur greinum í keppninni um titilinn sterkasti maður heims í Kuala Lumpur í dag. Basque Circle og Dumbbell.

„Fyrri greinin, sem er nokkurs konar útgáfa af dauðagöngu með körfu fyllta af ananas, felst í því að bera með hönunum einum 260 kíló. Ganga þarf með þau í eins marga hringi og keppandi hefur afl til,“ segir Andri Reyr Vignissonar. Hann og Einar Magnús Ólafíuson eru augu og eyru Vísis í Kuala Lumpur.

Hafþór keppti síðastur í greininni og vissi því alveg hve langt hann þyrfti að ganga með kílóin 260. Enginn í hans riðli komst heilan hring svo til þess að vinna þurfti hann að ná því.

„Hafþór gerði það eins og drekka vatn, stoppaði svo nákvæmlega eftir einn hring hoppaði upp á hjólið og fagnaði með stíl, meðan aðrir keppendur voru að hníga niður eftir um það bil hálfan hring eða svo. Okkar maður er því í þvílíkum anda og vel á sig kominn,“ segir Einar.

Milli greina skellti Fjallið sér í nudd en það þurfti hvorki meir né minna en fjóra nuddara til að klifra upp á fjallið og losa um kraftinn sem býr innra með okkar manni.

Það þarf fjóra nuddara til að nudda þennan skrokk.

„Í seinni greininni spilaði Hafþór öruggt,“ segir Andri. „Hann lauk greininni með stíl en það mátt sjá eldingar í bakgrunninum á meðan hann var að ljúka greininni. Það er í takt við að hérna er hann þekktur sem Thor, eða þrumuguðinn.“

Greininni var flýtt vegna rigningastorms sem gerði sig líklegan til að hellast yfir keppendur.

„Um það leyti sem Hafþór var að ljúka keppni voru eldingar farnar að gera vart við sig og einn og einn dropi farinn að falla frá himnum. Slíkur er krafturinn í okkar manni,“ segir Einar.

Hafþór er efstur í sínum riðli með 26 stig en næsti maður á eftir honum er með 21 stig. Á morgun er svo keppt í einni grein, Atlassteinum. Hafþór er konungur steinanna en hann öðlaðist þann titil í fyrra á sterkasti maður heims í Los Angeles. Þetta lítur því mjög vel út fyrir okkar mann og allar líkur á að hann sé kominn í úrslit.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.