Innlent

Samtökin '78: Kæra tíu einstaklinga fyrir hatursorðræðu í garð hinsegin fólks

Atli Ísleifsson skrifar
Hilmar Hildarson Magnúsarson er formaður Samtakanna 78.
Hilmar Hildarson Magnúsarson er formaður Samtakanna 78. Vísir/Getty
Samtökin ´78 hafa ákveðið að kæra tíu einstaklinga til lögreglu fyrir hatursummæli sem þau telja refsinæm. Ummælin sem Samtökin ‘78 kæra telja þau fela í sér háð, róg og smánun í garð hinsegin fólks vegna kynhneigðar þess og/eða kynvitundar. Munu þau leggja fram kæru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í fyrramálið.

„Þeir einstaklingar sem hefur verið ákveðið að kæra hafa kynt undir orðræðu sem við teljum vega gróflega að rétti hinsegin fólks til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og fyllsta jafnréttis. Réttinda sem vernduð eru af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland er aðili að, þar með talið mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir í yfirlýsingu frá stjórninni sem segist harma þá neikvæðu umræðu sem fylgt hefur í kjölfar samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að því er varðar hinsegin fræðslu í grunnskólum.

Hilmar Hildarson Magnúsarson formaður Samtakanna ´78 segir hinsegin fólk um allt land, börn þess, fjölskyldu og vini taka umræðunni þungt.

Það er vegna þessarar vanlíðunar sem hatursummælin valda að stjórnin hefur ákveðið að vandlega ígrunduðu máli í samráði við lögmann samtakanna að kæra ummælin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×