Innlent

Gefur út bók á Englandi um miðilshæfileika Indriða

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Nýlega fundust áður óbirtar fundabækur Tilraunafélagsins í Reykjavík sem stofnað var utan um spámiðilinn Indriða Indriðason snemma á síðustu öld. Mikil eftirspurn er eftir frásögnum af meintum hæfileikum Indriða í Bretlandi og þar er að koma út bók um efnið eftir íslenskan fræðimann.

Í Brestum á mánudag var fjallað um störf spámiðla. Indriði Indriðason spámiðill er einn frægasti spámiðill Íslands en hann var virkur snemma á síðustu öld, árin 1904-1909 en lést aðeins 28 ára eftir baráttu við berkla árið 1912.

Miklar sögur eru sagðar af Indriða miðli í bók Þórbergs Þórðarsonar, Indriði miðill. Þar færir Þórbergur í letur endurminningar Brynjólfs Þorlákssonar söngkennara, en hann sat fjölmarga tilraunafundi með Indriða frá hausti 1905.

Ótrúlegar frásagnir af meintum hæfileikum Indriða

Meðal viðmælenda í Brestum á mánudag var dr. Erlendur Haraldsson prófessor emeritus í sálfræði en hann hefur kynnt sér störf Indriða. Nýlega fundust áður óbirtar fundargerðir frá miðilsfundum Tilraunafélagsins, félagsskapar sem stofnaður var utan störf Indriða. Voru þær teknar saman í bók sem kom út nýlega hér á landi og á næstunni kemur út bók eftir dr. Erlend í Englandi þar sem fjallað er um þessar fundargerðir.

Ótrúlegar frásagnir af hæfileikum Indriða birtast í þessum skjölum. 

„Fólk sem hafði enga trú á þessu kom á fundi hjá Indriða en gerði það svo eftir kynni sín af því sem fór fram á fundinum. Hann fór að skrifa ósjálfráða skrift, hann féll í trans og svo fóru að gerast ýmis hreyfifyrirbæri í kringum hann,“ segir dr. Erlendur.

Trúir þú á líf eftir dauðann? „Ég er bara eins og helmingur Íslendinga. Mér finnst það ekkert ólíklegt.“

Það hefur vakið athygli að framliðnir hafa, fyrir milligöngu spámiðla, oft ósköp venjulegar upplýsingar fram að færa á miðilsfundum, ómerkilega hluti, en ekki upplýsingar sem snúa að eigin tilvist að handan.

Hinir framliðnu hafa aldrei komið með nákvæmar upplýsingar um hvað nákvæmlega gerist þegar við deyjum. Hvert ferðu þegar þú deyrð? Hvar er þetta fólk? Hafa slíkar upplýsingar aldrei komið fram? „Það hafa margvíslegar upplýsingar komið fram en þær eru hins vegar mjög ólíkar og þess vegna er ekki hægt að leggja mikinn trúnað á þær,“ segir Erlendur.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×