Íslenski boltinn

Kristján Flóki er ekki samningsbundinn Breiðabliki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/FCK.dk
Kristján Flóki Finnbogason er ekki búinn að skrifa undir samning við knattspyrnudeild Breiðabliks, samkvæmt heimildum Vísis.

„Hann [Kristján Flóki] var að skrifa undir 3 ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks,“ sagði í frétt á heimasíðu félagsins þann 17. mars.

Það er hins vegar ekki rétt en eins og kom fram á Fótbolti.net í gær er líklegasta niðurstaðan sú að Kristján Flóki gangi í raðir FH, síns uppeldisfélags, sem hefur áhuga á að fá hann aftur í Hafnarfjörðinn.

Kristján Flóki er enn samningsbundinn FCK í Kaupmannahöfn til næsta árs en það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að hann sé á leið frá félaginu.

Breiðablik sendi frá sér yfirlýsingu í gær að knattspyrnudeild félagsins hafi gert samkomulag við Kristján Flóka í gegnum umboðsmann hans, auk þess sem að samkomulag sé fyrir hendi við FCK.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, vildi lítið láta hafa eftir sér um málið í samtali við Vísi í dag og vísaði í yfirlýsingu félagsins.

Hann sagði þó að málið væri í skoðun innan félagsins og að hann reiknaði fastlega með því að allir aðilar myndu „standa við það sem þeir hafa staðfest við okkur [Breiðablik] til þessa.“

Leikmaðurinn sjálfur hefur hins vegar ekki staðfest félagaskiptin með undirritun sinni og því er enn óljóst hvernig lyktir þetta mál fær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×