Erlent

Drög komin að samkomulagi um afborganir Grikkja

Heimir Már Pétursson skrifar
Fjármálaráðherrar annarra evruríkja en Grikklands hafa lagt fram drög sem gætu orðið að samkomulagi um afborganir Grikkja af skuldum þeirra, eftir neyðarfund evru-ríkjanna í Brussel í dag. Merkel Þýskalandskanslari segir Grikki hins vegar þurfa að skýra hugmyndir sínar betur svo önnur evruríki skilji hvert þeir eru að fara með hugmyndum sínum.

Grikkir vongóðir

Fjármálaráðherrar evru-ríkjanna nítján komu saman til neyðarfundar í dag til að reyna að finna lausn á skuldastöðu Grikklands eftir að nýkjörin ríkisstjórn landsins hafnaði skilmálum lánasamninga við Evrópska seðlabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrri ríkisstjórn hafði gert.

Ynais Vanoufakis fjármálaráðherra Grikklands kom vongóður til neyðarfundarins í Brussel í dag.

„Ég er mjög vongóður um að samkomulag náist og treysti því að það muni nást. Grísk stjórnvöld hafa nálgast samstarfsríkin með afgerandi hætti. Við erum ekki einu sinni að fara fram á að þau mæti okkur á miðri leið heldur aðeins hluta leiðarinnar,“ sagði Vanoufakis þegar hann kom til neyðarfundarins.

Grikkir fara fram á sex mánaða framlengingu á afborgunum lána sinna sem eru á gjalddaga um næstu mánaðamót á meðan þeir reyni að verða sér út um meira fjármagn.

Fljótlega eftir að fjármálaráðherrarnir mættu til neyðarfundarins var honum frestað til eftirmiðdagsins í dag á meðan embættismenn evru-svæðisins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Grikklands færu yfir tillögurnar.

Markmið ESB að halda Grikkjum innan evrusvæðisins

Angela Merkel kanslari Þýskalands var á fundi með Francois Hollande Frakklandsforseta um ástandið í Úkraínu í París í dag.

„Töluverðar framfarir verða að eiga sér stað ef framlengja á gjalddaga af lánum Grikkja þannig að við getum skýrt út fyrir öðrum ríkjum Evrópu hvað samkomulag um það myndi þýða. Það er mörgum tæknilegum spurningum ósvarað. Í þeim málum þarf að vinna og það er brýnt að ákvarðanir verði teknar,“ sagði Merkel. Fjármálaráðherra evru-ríkjanna ynnu nú að lausn málsins.

Merkel sagði Grikki hafa fært miklar fórnir sem væru farnar að skila sér og það hafi alla tíð verið markmið þýskra stjórnvalda og annarra ríkja Evrópusambandsins og evru-ríkjanna að halda Grikkjum innan evrusvæðisins.


Tengdar fréttir

SYRIZA boðar nýtt upphaf

Þingkosningar fóru fram í Grikklandi í dag. SYRIZA bar stórsigur úr bítum samkvæmt útgönguspám.

Segir Grikkland ekki stefna í greiðslufall

Nýr forsætisráðherra Grikklands að ríkið muni semja við lánadrottna um 240 milljarða evra björgunarpakka landsins þegar hann ávarpaði nýja ríkisstjórn sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×