Körfubolti

Sverrir: Þegar við gerum hlutina saman erum við góðar

Anton Ingi Leifsson í Laugardalshöll skrifar
Það verður fagnað í Grindavík í kvöld.
Það verður fagnað í Grindavík í kvöld. vísir/þórdís
Sverrir Þór Sverrisson stýrði Grindavík til sigurs á Keflavík í úrslitaleik Powerade-bikarsins í körfubolta í Laugardalshöllinni í dag. Hann var að vonum hæstánægður þegar Vísir hitti hann að máli eftir leikinn.

„Þetta var frábær sigur og það var gaman að sjá hversu grimmar og einbeittar stelpurnar mættu til leiks og við höfðum mjög gaman að þessu,“ sagði Sverrir en hvað skóp sigurinn að hans mati?

„Frábær vörn, barátta og samheldni. Við lentum í vandræðum í sókninni í 4. leikhluta og skoruðum ekki í langan tíma.

„Samt nálguðust þær okkur ekki að ráði því við spiluðum góða vörn,“ sagði þjálfarinn sem hefur einnig gert kvennalið Njarðvíkur að bikarmeisturum.

En fór um Sverri í lokaleikhlutanum þegar Keflavík fór að þjarma að Grindavíkurstúlkum?

„Tja, manni líður alltaf betur þegar maður er með góða forystu. En mér fannst við vera í þannig gír að við myndum bara bæta í.“

Grindavík fékk gott framlag frá mörgum leikmönnum og Sverrir var ánægður með liðsheildina í dag.

„Það voru margar sem lögðu hönd á plóg og við erum þannig lið. Þegar við gerum hlutina hver í sínu horni höfum við verið í tómu tjóni og tapað.

„En þegar við gerum hlutina saman erum við með feykilega gott lið,“ sagði Sverrir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×