Innlent

Fimm mánaða dómur staðfestur yfir Jóni Garðari

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skattsvikin námu rúmum 22 milljónum krónum auk þess sem hann var dæmdur til að greiða sekt upp á 45 milljónir króna.
Skattsvikin námu rúmum 22 milljónum krónum auk þess sem hann var dæmdur til að greiða sekt upp á 45 milljónir króna. Vísir/Arnþór
Hæstiréttur staðfesti í dag fimm mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir Jóni Garðari Ögmundssyni, fyrrverandi rekstraraðila McDonald‘s á Íslandi og veitingastaðarins Metro.

Jón Garðar var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur í febrúar í fyrra fyrir að standa ekki skil á opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfsmanna McDonald‘s og síðar Metro eftir að McDonald‘s hætti. Staðirnir voru báðir reknir af fyrirtækinu Lyst ehf. sem Jón Garðar fór fyrir.

Brotin áttu sér stað árunum 2009 og 2010. Héraðsdómur dæmdi Jón Garðar í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvikin sem nema rúmum 22 milljónum krónum auk þess sem hann var dæmdur til að greiða sekt upp á 45 milljónir króna.

Merki Metro.
Játaði en samt ekki

Verjandi Jóns Garðars fór fram á sýknu í málflutningi í Hæstarétti í vikunni og gerði meðal annars athugasemd við þá niðurstöðu héraðsdóms að sannað væri með „skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi framið háttsemina sem í ákæru greinir.“

Spurðu hæstaréttardómarar hvort að verjandinn vildi meina að þarna væri dómarinn að túlka orð ákærða og sagðist verjandinn líta svo á.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að Jón Garðar hafi neitað sök í málinu en þó viðurkennt að ákæran sé rétt, bæði hvað varðaði málavexti og upphæðir. Hann hafi hins vegar ekki getað staðið skil á opinberum gjöldum vegna þess að hann hafði ekki „aðgengi að sjóðum fyrirtækisins“, eins og verjandi hans orðaði það í morgun.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.Vísir/GVA
Engin gögn sem tengjast samskiptum við bankann

Lögmaðurinn benti á að Lyst ehf. hefði verið með gengislán hjá viðskiptabanka sínum sem stökkbreyttist við fall krónunnar í kjölfar efnahagshrunsins. Við það hafi fyrirtækið lent í rekstrarerfiðleikum en bankinn hafi fyrst og fremst viljað fá greitt af láninu. Því hafi verið ákveðinn ómöguleiki til staðar varðandi það að standa skil á opinberum gjöldum.

Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari spurði verjandann þá hvort eitthvað í gögnum málsins sannaði það að bankinn hafi vísvitandi haldið eftir peningum svo að fyrirtækið gat ekki greitt þau opinberu gjöld sem því bar. Verjandinn kvað svo ekki vera.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, sagði málsvörn Jóns Garðars um rekstrarerfiðleika ekki standast. Slíkt hefði aldrei ráðið niðurstöðu í málum er vörðuðu vanskil á opinberum gjöldum. Hins vegar lægi fyrir af hálfu Jóns Garðars að þáttum málsins væri rétt lýst í ákæru og að hann bæri ábyrgð á skilunum.

Hæstiréttur gerði engar athugasemdir við dóminn sem féll í héraði. Þann dóm, sem hingað til hefur verið óaðgengilegur á vefsíðu dómstólanna, má nú lesa í heild sinni hér ásamt dómi Hæstaréttar.

Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara á hendur Jóni Garðari og Ásgerði Guðmundsdóttir, fyrir skattsvik upp á 69 milljónir króna, er fyrirhuguð í mars eins og lesa má nánar um hér.


Tengdar fréttir

Skattsvik upp á tæpar 60 milljónir króna

Jón Garðar Ögmundsson, rekstraraðili McDonald's á Íslandi og síðar Metro, hefur í tvígang verið ákærður fyrir skattsvik. Héraðsdómur sakfelldi hann í öðru málinu á síðasta ári en aðalmeðferð í hinu málinu fer fram eftir mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×