Handbolti

Enginn Íslendingur inn á topp 30 á markalistanum á HM í Katar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/Eva Björk
Íslenska handboltalandsliðið hefur aðeins skorað 99 mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum á HM í handbolta og það eru bara fjögur lið sem hafa skorað færri mörk á mótinu til þessa.

Það kemur því kannski ekki mikið á óvart að enginn íslenskur leikmaður skuli vera meðal þeirra 30 markahæstu eftir fjóra af fimm leikjum riðlakeppninnar.

Aron Pálmarsson er markahæstur íslenska liðsins með 17 mörk en það dugar honum bara upp í 33. sæti listans. Aron er 22 mörkum á eftir markahæsta manni mótsins sem er Slóveninn Dragan Gajic sem hefur skorað 39 mörk í fjórum leikjum eða 9,8 mörk að meðaltali í leik.

Aron hefur þurft 41 skot til að skora þessi 17 mörk og er því aðeins með 41 prósent skotnýtingu en hinar tvær vinstri skyttur liðsins, Arnór Atlason (31 prósent skotnýting, 5 af 16) og Sigurbergur Sveinsson 0 prósent skotnýting, 0 af 5) eru með mun verri nýtingu.

Alexander Petersson er næstmarkahæstur í íslenska liðinu með 15 mörk og landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson hefur skorað 12 mörk þar af fimm þeirra af vítapunktinum. Guðjón Valur hefur þar með aðeins skorað sjö mörk utan af velli í leikjunum fjórum sem er skrítin tölfræði fyrir markahæsta leikmann landsliðsins frá upphafi.

Snorri Steinn Guðjónsson (11 mörk) og Róbert Gunnarsson (10 mörk) eru í næstu sætum en aðeins fimm leikmönnum íslenska liðsins hefur tekist að rjúfa tíu marka múrinn.


Tengdar fréttir

Íran með betri skotnýtingu en Ísland á HM í Katar

Ísland er bara ein af fjórum þjóðum á heimsmeistaramótinu í handbolta sem er bæði með undir fimmtíu prósent skotnýtingu og hefur ekki náð að skora hundrað mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum.

„Sjokkerandi“ frammistaða strákanna

„Þetta er sjokkerandi og er alveg saman hvar tekið er niður í leiknum,“ sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari eftir tapið gegn Tékklandi á HM í Katar í gær.

Guðjón Valur: Ég er ekki kominn á endastöð

Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson segir að það sé of mikill óstöðugleiki í íslenska landsliðinu og hafi verið í langan tíma. Strákarnir okkar upplifðu hrun gegn Tékklandi á Heimsmeistaramótinu í Katar í gær.

Þessar myndir segja meira en mörg orð

Íslenska landsliðið tapaði með ellefu marka mun á móti Tékkum á HM í handbolta í Katar í gær en Tékkarnir sem höfðu ekki unnið leik á mótinu rúlluðu upp strákunum okkar 36-25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×